Þegar vanmáttur breytist í reiði getur tímabundin vald­efling skapað hættu fyrir aðra. Sálfræðingur segir árásina í Kaupmannahöfn vonandi stakt tilvik en að ekki sé hægt að útiloka smitunaráhrif frá fjöldamorðum í Bandaríkjunum.

Guðbrandur Árni Ísberg, sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði, var staddur í Kaupmannahöfn þegar Dani á þrítugsaldri myrti fólk með skotvopni í verslunarmiðstöð á sunnudag.

Hann segir ekki ólíklegt að gerandinn hafi af einhverjum ástæðum upplifað sig jaðarsettan, vanmáttugan og fullan af skömm.

Óvarlegt sé að alhæfa um hvort öryggi innan Evrópu kunni að vera á undanhaldi. Ekki sé þó hægt að útiloka evrópsk smitáhrif af reglulegum fréttaflutningi af morðum á almenningi í Bandaríkjunum.

Árásarmennirnir upplifi sig utangarðs

„Það hafa ýmsar rannsóknir verið gerðar um skotárásir í Bandaríkjunum þar sem ungir karlmenn taka sig til, fara í skóla eða á aðra opinbera staði og skjóta eins og þeir geta. Langflestir eiga það sammerkt að upplifa sig utangarðs, þeir upplifa að þeir tilheyri ekki stærstum hluta samfélagsins,“ segir Guðbrandur Árni.

Sálfræðingurinn segir að þegar manneskja upplifi að henni hafi verið ýtt út á jaðarinn fylgi því minnkun. Þá kvikni tilfinning sem við köllum skömm.

„Rannsóknir sýna mjög skýrt að engin tilfinning tengist ofbeldi jafn mikið og skömmin,“ segir Guðbrandur Árni. Sterkasta skammartilfinningin, niðurlæging, hefur djúpstæð áhrif á sjálfsmat og hugmyndir einstaklings um eigið virði.

„Það sem er hættulegt við skömmina er að sumir einstaklingar bregðast við þeirri minnkun sem í henni felst með því að grípa til reiðinnar því hana upplifum við gjarnan valdeflandi og sem mótefni við minnkuninni,“ segir Guðbrandur Árni.

Mörg dæmi séu um það í nánum samböndum. Kannað hafi verið hvað gerist rétt áður en líkamlegu ofbeldi sé beitt. Oftar en ekki upplifi sá sem beitir ofbeldinu að hann sé einskis virði og vanmáttugur í aðstæðunum. Við að beita ofbeldi er viðkomandi aftur kominn við stjórnvölinn, sjálfsöryggi eykst og skömmin minnkar.

„Ofbeldi er óuppbyggileg leið. En sumir nota hana í því skyni að endurreisa æru sína.“

Guðbrandur Árni Ísberg, sálfræðingur

Einmannaleiki sem vaxandi vandi

Guðbrandur Árni segir erfitt að spá fyrir um hvort hrina skotárása í Bandaríkjunum gæti færst yfir í aðra heimshluta líkt og Evrópu. Þekkt sé að umfjöllun um sjálfsvíg kunni tímabundið að ýta undir hugmyndir þeirra sem eftir standa um að sjálfsvíg geti verið tækt úrræði úr vanda.

Guðbrandur telur þó meira virði að ræða samfélagsbreytingar á hinu félagslega sviði og ekki síst einmanaleika sem vaxandi vanda. Þegar íbúar Vesturlanda voru í rannsóknum spurðir fyrir um 30 til 40 árum hve marga trúnaðarvini þeir ættu hafi svarendur að jafnaði nefnt tvo til fjóra vini. Nú sé orðið nokkuð algengt að fólk, og sérstaklega karlmenn, svari að það eigi engan trúnaðarvin.

„Langvarandi einmanaleiki er mikill streituvaldur og aukinn áhættuþáttur fyrir jafnt andlega sem líkamlega heilsu. Að upplifa sig einmana er til dæmis líkamlega skaðlegra fyrir fólk en að reykja pakka af sígarettum á dag. Það segir sitt um hina djúpu þörf okkar fyrir að tilheyra, að eiga heima meðal annars fólks.“

Guðbrandur Árni segir að sérfræðingar í hryðjuverkum hafi í mörg ár í ráðgjöf sinni til til stjórnvalda meðal annars lagt áherslu á mikilvægi þess að koma í veg fyrir jaðarsetningu hópa.

„Vitað er að gerandinn í skotárásinni hér í Kaupmannahöfn hefur átt við andleg veikindi að stríða árum saman. Af hverju þau stafa hefur ekki verið gert opinbert en væntanlega er þessi hræðilegi atburður enn ein áminningin um þær afleiðingar sem geta orðið ef við erum ekki nógu vakandi fyrir velferð hvert annars og þeim þörfum sem við höfum til að geta verið í góðu andlegu jafnvægi,“ segir Guðbrandur Árni Ísberg.