Samkvæmt nýjum reglugerðardrögum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bætast þrjár hundategundir á bannlista til innflutnings. Verða þær þá í heildina fjórar talsins. Félag ábyrgra hundaeigenda segir löggjöfina í heild byggja á rangri nálgun.

„Það er ekki hægt að segja að ákveðna tegundir séu hættulegar og að gera það veitir okkur falskt öryggi,“ segir Freyja Kristinsdóttir, dýralæknir og formaður félagsins, sem berst fyrir bættum réttindum hundaeigenda og bættu hundahaldi í landinu. „Með því að banna ákveðnar tegundir verða ekki aðeins hættulausir hundar eftir í landinu. Allir hundar geta bitið. Þess vegna þarf að meta hvern og einn hund fyrir sig.“

Hundarnir sem um ræðir og Íslendingar hafa sóst eftir að flytja inn eru Cane Corso, Presa Canario og Boerboel. Bætast þeir við Pit og Staffordshire Bull Terrier, Fila Brasileiro, Toso Inu og Dogo Argentino. Þá mun Matvælastofnun, MAST, áfram hafa heimild til að banna tegundir eða blendinga með rökstuddri ákvörðun.

Freyja segir að það þurfi að vekja almenning til vitundar um hvernig eigi að nálgast hunda. „Í langflestum tilfellum bíta hundar vegna þess að fólk kann ekki að umgangast þá. Ef þeim líður illa í vissum aðstæðum og komast ekki burt getur eina leiðin þeirra verið að glefsa eða bíta frá sér,“ segir hún.

Fólk hefur leitað til félagsins varðandi hundategundir sem ekki eru til í landinu. Freyja segir þó að þegar tegund sé komin á bannlista sé lítið hægt að gera. Hún bendir þó á mál hundsins Rjóma, af tegundinni English bull terrier, sem MAST taldi hættulega en eigandinn hafði betur að lokum.

„Ég held því miður að þekking MAST á atferli hunda og hundategundum sé afar takmörkuð,“ segir Freyja. „Það er verið að fylgja mýtum, sögusögnum og fréttaflutningi erlendis frá um þessar tegundir og þá sé betra að banna frekar fleiri en færri tegundir.“

Hrund Hólm, dýralæknir inn- og útflutnings hjá MAST, segir tegundamiðaðar reglur eins og gilda á Íslandi ekki óumdeildar. En á meðan heildarlöggjöf um hundahald skorti telji MAST þessa leið þá bestu í stöðunni. „Hérna skortir heildarlöggjöf um hundahald og yfirdýralæknir hefur ítrekað kallað eftir henni,“ segir Hrund.

Hvað varðar þessar þrjár tegundir segir Hrund reglugerðina aðeins staðfesta núverandi verklag MAST. „Þessar þrjár tegundir hafa ítrekað verið bannaðar undanfarið ár á þeim forsendum að þær eru mjög líkar þeim sem eru nú þegar bannaðar,“ segir hún. „Þar spilar inn í uppruni, ræktun, líkamsbygging, geðslag og notkun þessara hunda í gegnum tíðina.“

Hundarnir séu stórir og öflugir og hafi verið ræktaðir sem varðhundar, bardagahundar í dýraati eða til þess að veiða stór dýr. „Heilt yfir er mikil breidd innan tegunda, en þessir hundar hafa þannig eiginleika að það er nauðsynlegt að hafa vissa kunnáttu í allri umgengni við þá. Því ef þeir verða árásargjarnir geta þeir valdið miklu tjóni,“ segir hún.

MAST dregur þó línuna við hunda sem eru þegar í landinu. Hundar sem hafa sögu sem varðhundar eða ratað í fréttir vegna bita, svo sem Rottweiler, Dobermann og Husky, fara ekki á bannlista. Þær tegundir hafi heldur ekki oft ratað á bannlista annarra þjóða