Neyt­enda­stofa hefur bannað fyrir­tækjunum Norðan­fiski og Fisher­man að nota villandi full­yrðingar í markaðs­setningu þar sem látið er að því liggja að af­urðir þeirra komi úr „vist­vænu sjó­eldi“.

For­saga málsins er sú að Neyt­enda­sam­tökin fengu á­bendingu um villandi merkingar hjá um­ræddum fyrir­tækjum og var á­lits leitað hjá við­komandi stofnun, sem nú liggur fyrir.

For­vígis­menn Neyt­enda­sam­takanna segja á heima­síðu sinni að orð­notkunin „vist­vænt sjó­eldi“ sé afar villandi og í raun ó­líðandi með öllu. Sjó­kvía­eldi sé bein­línis flokkað sem mengandi iðnaður á vef Um­hverfis­stofnunar, enda fari skólpið sem verði til við fram­leiðsluna beint í sjóinn.

Á síðunni er bent á að norska um­hverfis­stofnunin hafi metið mengunina af hverju tonni í sjó­kví á við skólp frá 16 mann­eskjum. Laxar séu til dæmis með leyfi fyrir 16.000 tonnum í Reyðar­firði, sem fram­leiði þannig skólp á við 256.000 manns. Það geti ekki talist vist­vænt.

Á um­búðum Norðan­fisks var full­yrt að um vist­vænt sjó­eldi væri að ræða. Neyt­enda­sam­tökin hafi óskað eftir upp­lýsingum frá fyrir­tækinu um hvað átt væri við með orða­laginu „vist­vænt sjó­eldi“ og hvort ein­hver vottun lægi þar að baki. Í svörum fyrir­tækisins komi fram að birgjar þeirra skil­greindu sjálfir sitt eldi sem vist­vænt, en hefðu enn ekki hlotið neinar vottanir í þá veru.