Bannað er að gefa búfé dýraafurðir og eldhúsúrgang samkvæmt tilkynningu sem Matvælastofnun sendi frá sér í dag.

„Fóðrun dýra með dýraafurðum eða eldhúsúrgangi getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér enda ein helsta smitleið margra alvarlegra smitsjúkdóma í dýr,“ segir í tilkynningunni. Ástæðan fyrir banninu er að kjöt og dýraafurðir, bæði hráar og eldaðar matarleifar, eru ein helsta smitleið alvarlegra smitsjúkdóma.

Gin- og klaufaveikifaraldurinn í Bretlandi árið 2001 varð til þess að hátt í 6,5 milljónir dýra voru aflífuð. Ársframleiðsla á búfjárafurðum á landsvísu var 20 prósent minni en áætlað var. Fjárhagslegt tjón landbúnaðar- og matvælageirans var um þrír milljarðar punda og var heildarkostnaður fyrir þjóðina talinn hafa verið um átta milljarðar punda. Afleiðingar af slíkum faraldri hér á landi yrðu mjög alvarlegar, jafnvel óbætanlegar fyrir íslenska dýrastofna.

„Afleiðingar af slíkum faraldri hér á landi yrðu mjög alvarlegar, jafnvel óbætanlegar fyrir íslenska dýrastofna.“

Ætla má að afleiðingar af slíkum faraldri hér á landi yrðu mjög alvarlegar, jafnvel óbætanlegar fyrir íslenska dýrastofna.

Í þeim tilvikum sem alvarlegir smitsjúkdómar hafa borist í svín hér á landi var hægt að rekja smitið til eldhúsúrgangs.

Matvælastofnun minnir á að enn hefur ekki tekist að hefta útbreiðslu afrískrar svínapestar í Evrópu, Asíu og Afríku. Afrísk svínapest er bráðsmitandi drepsótt í svínum, sem getur borist með sýktum svínum og sæði og hráu kjöti af sýktum dýrum. Veiran sem veldur sjúkdómnum er ekki hættuleg fyrir fólk eða önnur dýr en veldur svínum þjáningum.