Undanfarna daga hafa hollenskir tollverðir lagt hald á matvæli hjá bílstjórum sem koma keyrandi frá Bretlandi til Hollands. Myndbandsupptaka af hollenskum tollverði að gera álpappírsvafða skinkusamloku upptæka hjá breskum bílstjóra hefur vakið talsverða athygli ytra. Á myndbandinu bendir tollvörðurinn bílstjóranum á að frá og með 1. janúar sé óheimilt að flytja matvæli úr dýraafurðum frá Bretlandi til Evrópusambandsríkja. „Geturðu tekið skinkuna og leyft mér að halda brauðinu?“ segir bílstjórinn þá vongóður en fær þá svarið: „Nei, allt verður gert upptækt. Velkominn í Brexit, herra minn. Mér þykir þetta leitt.“

Breskir fjölmiðlar greina ennfremur frá því að matvælaframleiðendur hafi lent í vandræðum með að flytja vörur sínar til og frá Bretlandi. Skriffinnska hafi aukist mikið og flóknara sé að fylla út öll fylgiskjöl.