Lyfjastofnun hefur gert Guðmundi Karli Snæbjörnssyni, sérfræðingi í heimilislækningum að eyða tveimur Facebook-færslum sínum þar sem hann fjallar um lyfið Ivermectin og kosti þess gegn Covid-19. Stofnunin telur skrif Guðmundar, sem skrifar undir nafninu Kalli Snæ, flokkast undir lyfjaauglýsingu. Þó nokkuð hefur verið fjallað um Ivermectin í vísindasamfélögum og fjölmiðlum víða um heim og þá sem lyf sem mögulegan kost gegn veikindum vegna SarS-Cov-2 veirunnar sem veldur Covid-19 og hefur Guðmundur mælt með og vakið athygli á þeim.

Guðmundur Karl segist ætla að verða „ að sinni" við kröfu Lyfjastofnunar en í bréfi hennar segir hann að krafist sé að færslunum verði eytt innan 2ja daga frá birtingu úrskurðar stofnunarinnar. Að öðrum kosti svarað með dagssektum og lögsókn. Guðmundur birtir bréfið (sjá að neðan) en tekur fram að hornklofar, leturstærð og feitletrun séu hans eigin.

Mbl.is sagði í lok síðasta árs frá meist­ara­rit­gerð Esther Vikt­oríu Ragn­ars­dótt­ur í lyfja­fræði sem varpaði ljósi á virkni Ivermectin gegn veirunni sem veldur Covid-19. Lyfið er mikið notað gegn sníkju­dýra­sýk­ing­um í fólki sem býr sunnan Sahara í Afr­íku. Velta vísindamenn fyrir sér hvort minni tíðni sýkinga en ráð var gert fyrir í vanþróuðustu Afríku geti átt sér skýringar vegna lyfjanotkunarinnar þar. Fólki er gefið lyfið um langt árabil við ár­blindu (e. ri­ver blind­ness) og fleiri van­rækt­um sjúk­dóm­um þró­un­ar­landa sem al­geng­ir eru í Afr­íku sunn­an Sa­hara.

Benti Esther m.a. á rannsóknir ástr­alskra vís­inda­manna sem studdu grun um að lyfið hefði góð áhrif gegn SarS-Cov-2, veirunni sem veld­ur Covid-19 og einnig að lyfið sé ódýrt.

Guðmundur segir í færslu sinni að hann viti ekki um neinn sem geti bent á auglýsingaherferð á Ivermectin. „En rétt skal vera rétt og þá tek undir orðalag þeirra að "kynntir" hafi verið frábærir eiginleikar þessa lyfs, út frá rannsóknum og vísindalegri nálgun, sem benda sterklega til að lyfið geti ekki bara fyrirbyggt smit SARS-CoV-2 og þannig veikindi af Covid-19, heldur mikilvægt við alla meðferð á öllum stigum sjúkdómsins“, stendur m.a. í færslu Guðmundar sem lætur fylgja með umfjöllun sem hann tekur þó að enn sé í ritrýningarferli.