Hagkaupum er bannað að selja Disney búninga frá framleiðandanum Disguise, Inc. þar sem þeir uppfylla ekki evrópsk lög um öryggi vöru og leikfanga.

Neytendastofu barst ábending um að grímubúningar fyrir börn sem seldir voru í verslunum Hagkaupa uppfylltu ekki lagakröfur. Fulltrúi Neytendastofa heimsótti verslun Hagkaupa í Kringlunni og sótti þar fjögur eintök af mismunandi Disney grímubúningum frá fyrrnefndum framleiðanda. Voru það búningar fyrir persónurnar Dúmbó, Simba, Bósa Ljósár og Öskubusku.

„Við skoðun á búningunum kom í ljós að búningarnir væru ekki CE-merktir og því ekki ljóst hvort búningarnir hafi verið framleiddir í samræmi við kröfur viðeigandi laga og reglna sem gilda um framleiðslu leikfanga,“ segir í niðurstöðu Neytendastofu.

Hagkaup innkallaði grímubúningana þann 17. september síðastliðinn en þeir voru til sölu í verslunum þeirra í Skeifunni, Kringlunni, Garðabæ, Smáralind, Spöng og á Akureyri.

„Viðskiptavinum sem versluðu vöruna, er bent á að hægt er að skila búningunum í næstu Hagkaups verslun gegn fullri endurgreiðslu. Hagkaup biður viðskiptavini sína innilega afsökunar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda,“ segir í tilkynningu frá Hagkaup en þar má sjá yfirlit yfir alla búninga sem viðskiptavinir geta skilað.

Búningarnir sem Neytendastofa skoðaði.
Mynd: Neytendastofa