Land­eig­endur Kirkju­fells, Háls og Búða hafa tekið á­kvörðun um að banna upp­göngu á Kirkju­fell frá og með deginum í dag þar til í júní. Þetta kemur fram í til­kynningu frá hópi land­eig­enda.

Í til­kynningunni er á­stæðan meðal annars að forða frekari slysum, en bana­slys var á fjallinu þann 19. októ­ber síðast­liðinn.

Land­eig­endur funduðu á laugar­dag með bæjar­stjóra og skipu­lags­full­trúa Grunda­fjarða­bæjar, full­trúum frá við­bragðs­aðilum og Ferða­mála­stofu um við­brögð við aukningu á fjölda ferða­manna sem fara að Kirkju­felli og fjölda slysa sem hafa orðið við fjallið.

Aðrar á­stæður við banninu eru breyti­legar að­stæður í fjallinu, bæði fyrir ferða­menn og við­bragðs­aðila, en oft eru við­vörunar­orð alveg hundsuð.

„Í sam­tölum, einkum við er­lent ferða­fólk, höfum við orðið vör við að fólk skynjar ekki hætturnar og á­kveður, þrátt fyrir við­varanir, að ganga á fjallið illa búið og við hættu­legar að­stæður. Sam­kvæmt upp­lýsingum frá við­bragðs­aðilum hafa flest slysin átt sér stað að hausti og vetri þegar að­stæður eru hvað erfiðastar og lítið má út af bregða svo fólki skriki ekki fótur og falli niður brattar hlíðarnar. Að­stæður við­bragðs­aðila sem kallaðir eru til björgunar í Kirkju­felli eru á­vallt erfiðar og hættu­legar. Land­eig­endur vilja í lengstu lög forðast að björgunar­fólk þurfi að leggja sjálft sig í lífs­hættu við að fara í erfið og krefjandi út­köll á þeim tíma þegar að­stæður eru hvað var­huga­verðastar,“ segir meðal annars í til­kynningunni.

Eins og fyrr segir er bannið frá og með deginum í dag til 15. Júní 2023, en þá er varp­tíma á fjallinu lokið. Skilti verður sett upp við fjallið og einnig við bíla­stæði við Kirkju­fells­foss.

Hér fyrir neðan má sjá til­kynninguna í heild sinni.

Laugar­daginn 5. nóvember sl. funduðu eig­endur jarðanna Kirkju­fells, Háls og Búða með bæjar­stjóra og skipu­lags­full­trúa Grundar­fjarðar­bæjar, full­trúum frá við­bragðs­aðilum og frá Ferða­mála­stofu, um við­brögð við stig­mögnuðum fjölda ferða­manna sem leggur leið sína að Kirkju­felli og fjölda al­var­legra slysa sem hlotist hafa við upp­göngu á fjallið. Rædd voru við­brögð og ráð­stafanir til að bæta öryggi allra sem leggja leið sína að og á Kirkju­fell.

Fundar­menn voru sam­mála um að í al­gerum for­gangi séu að­gerðir til að tryggja sem best öryggi ferða­fólks og við­bragðs­aðila, bæði til skemmri og lengri tíma.

Tíð slys og dauðs­föll ferða­fólks, sem lagt hefur leið sína á Kirkju­fell, kalla á enn frekari öryggis­ráð­stafanir. Gróður í fjallinu er einnig við­kvæmur og hefur látið mikið á sjá vegna á­troðnings, sem aftur dregur enn frekar úr öryggi fólks á svæðinu. Mikil slysa­hætta skapast á fjallinu að hausti og vetri, þegar blautt er og snjór og frost er í fjallinu. Sömu­leiðis að vori, þegar gróður­hulan er enn laus á berginu. Þetta þekkja heima­menn og ganga ekki á Kirkju­fell nema þegar þurrt er og að­stæður góðar. Þó að var­úðar­skilti sem stendur við rætur Kirkju­fells gefi skýrar leið­beiningar um hvernig fólk skuli vera út­búið ef það hyggur á göngu á fjallið og við hvaða að­stæður sé ekki ráð­legt að leggja í göngu hefur í­trekað borið á því að eftir þeim leið­beiningum sé ekki farið.

Í sam­tölum, einkum við er­lent ferða­fólk, höfum við orðið vör við að fólk skynjar ekki hætturnar og á­kveður, þrátt fyrir við­varanir, að ganga á fjallið illa búið og við hættu­legar að­stæður. Sam­kvæmt upp­lýsingum frá við­bragðs­aðilum hafa flest slysin átt sér stað að hausti og vetri þegar að­stæður eru hvað erfiðastar og lítið má út af bregða svo fólki skriki ekki fótur og falli niður brattar hlíðarnar. Að­stæður við­bragðs­aðila sem kallaðir eru til björgunar í Kirkju­felli eru á­vallt erfiðar og hættu­legar. Land­eig­endur vilja í lengstu lög forðast að björgunar­fólk þurfi að leggja sjálft sig í lífs­hættu við að fara í erfið og krefjandi út­köll á þeim tíma þegar að­stæður eru hvað var­huga­verðastar.

Með allt þetta í huga og til að freista þess að forða frekari slysum hafa land­eig­endur því á­kveðið að banna upp­göngu á Kirkju­fell frá og með deginum í dag og þar til varp­tíma í fjallinu er lokið þann 15. júní 2023. Þessu til stað­festingar verða fljót­lega sett upp skilti við upp­göngu­leið á fjallið og á bíla­stæði við Kirkju­fells­foss, auk þess sem upp­lýsingum um þetta verður komið á fram­færi með við­eig­andi hætti.

Sam­hliða verður tíminn til komandi vors nýttur til að vinna enn frekar að fram­tíðar­öryggis­málum og að­gengi á svæðinu. Í þeim til­gangi verður stofnaður sam­ráðs­hópur skipaður full­trúum land­eig­enda, við­bragðs­aðila, Grundar­fjarðar­bæjar og annarra opin­berra aðila sem koma að öryggis­málum ferða­fólks og náttúru­vernd.

Land­eig­endur biðla til allra sem koma að ferða­málum og upp­lýsinga­gjöf að á­minna ferða­fólk um að ganga ekki á Kirkju­fell yfir vetrar­tímann. Er þetta gert með öryggi allra í huga.

Við biðjum alla að virða þessa lokun og stofna hvorki sjálfum sér né öðrum í hættu!

Grundar­firði, 8. nóvember 2022

Land­eig­endur Búða, Háls og Kirkju­fells­lands