Börnum undir tólf ára verður meinað frá því að ganga að gos­stöðvunum frá og með deginum í dag. Á­kvörðunin var tekin eftir fund Al­manna­varna og annarra við­bragðs­aðila sem haldinn var í morgun. Úlfar Lúð­víks­son, lög­reglu­stjórinn á Suður­nesjum greindi frá þessu í sam­tali við RÚV.

„Ég held það sé hægt að segja að þetta sé tíma­bundin á­kvörðun þangað til annað kemur í ljós,“ segir Hjör­dís Guð­munds­dóttir, upp­lýsinga­full­trúi Al­manna­varna í sam­tali við Frétta­blaðið.

Á­kvörðunin er tekin í ljósi þeirrar reynslu sem við­bragðs­aðilar hafa upp­lifað síðustu daga. „Við sjáum að börn sem í raun og veru ráða ekki við það að vera að ganga upp að eld­stöðvunum og við erum alltaf fyrst og fremst að hugsa um öryggi, bæði ferða­manna, er­lendra gesta og borgara,“ segir Hjör­dís.

Á­kvörðunin er endan­lega tekin af lög­reglu­stjóranum á Suður­nesjum, að sögn Hjör­dísar.

„Eins og staðan er núna, bæði með gasmengun á svæðinu, veðrið og færðina upp að eld­gosinu eru bara þannig að þetta er ekki staður fyrir börn að vera á, þrátt fyrir að við áttum okkur öll á því að þetta sé stór­kost­legt að upp­lifa og sjá, þá teljum við bara að öryggi barnanna sé ekki tryggt,“ segir Hjör­dís.

Slíkra að­gerða var ekki gripið til við síðasta eld­gos á svæðinu. Hjör­dís segir að­stæður vera breyttar frá því gosi.

„Bæði er ferðin núna erfiðari, það er að segja leiðin hún er tor­veldari að labba, það er meira gas talið að komi upp úr þessu gosi og við erum líka að sjá fleiri er­lenda ferða­menn sem eru að koma með börnin sín, þannig að allt hefur þetta á­hrif en ekki bara eitt­hvað eitt,“ segir hún.

Betri og meiri lokanir við gossvæðið

Síðustu daga hefur gossvæðið verið lokað, það hefur þó ekki stöðvað fólk frá því að ganga að gosinu. Í gær bjargaði björgunar­sveitin um tíu manns við gos­stöðvarnar, en þau höfðu villst og óskað eftir að­stoð.

Hjör­dís segir Lög­reglu og Björgunar­sveitir hafa bætt í mann­skap og fólki verði á­fram vísað frá. „Eins og var reynt í gær. Það var virki­lega reynt að vísa fólki frá,“ segir hún.

„Maður sá það á frétta­flutningi í gær að fólk vissi að það væri lokað af því að ég held að fólk sé að mis­reikna sig á því hvernig veðrið er niðri við bíla­stæðin miðað við það hvernig það er uppi við þennan berangur þar sem ekkert skjól er,“ segir hún.

Hjör­dís segir að ekki enn hafi verið gripið til sekta en það sé eitt af því sem verið er að skoða. Lög­reglan hafi laga­lega heimild til þess.