Stjórnvöld í Ástralíu gripu til harðari aðgerða í baráttunni við kórónaveiruna og bönnuðu áströlsku þjóðinni að yfirgefa landið í dag.

Á sama tíma var það tilkynnt að öllum almenningsgörðum, sundlaugum, líkamsræktarstöðum, listasöfnum skyldi lokað á miðnætti.

Um leið voru gefnar út reglur um brúðkaup og jarðarfarir. Aðeins fimm manns mega vera viðstaddir brúðkaup og tíu mega vera viðstaddir jarðarför.

Það greindust 429 ný smit í Ástralíu miðvikudaginn 25. mars og er heildarfjöldi smita kominn í 2252 manns. Átta hafa látist í Ástralíu af völdum COVID-19.

Samkvæmt forsætisráðherra Ástralíu eru fáir Ástralir á ferðinni þessa dagana en tilkynnti að þeim yrði óheimilt að yfirgefa landið.

„Það ætti enginn að fara um borð í flugvél og ferðast erlendis. Við höfum reynt að benda fólki á þetta síðustu daga,“ sagði Scott sem sagði að undantekningar yrðu gerðar á banninu fyrir heilbrigðisstarfsfólk eða fólk í vinnuferð.