Sveitarstjórn Múlaþings ákvað á fundi sínum í gær að óheimilt verði að byggja á því svæði á Seyðisfirði þar sem skriðuföll urðu í desember síðastliðnum.

Þannig verður bannað að endurbyggja hús á tíu lóðum, en þar af eru fimm lóðir þar sem gert var ráð fyrir íbúðarhúsnæði.

„Sveitarstjórn Múlaþings heimilar ekki endurbyggingu húsa á eftirfarandi lóðum fyrr en hættumat liggur fyrir og gerðar hafa verið fullnægjandi ráðstafanir á ofanflóðavörnum,“ segir í samþykkt sveitarfélagsins.

Tillagan var unnin í samvinnu við Náttúruhamfaratryggingar Íslands. Fram kom í máli Björns Ingimarssonar, sveitarstjóra Múlaþings, á fundinum í gær að þeir sem orðið hafa fyrir tjóni fái fullar bætur úr sjóðnum samkvæmt brunabótamati.

Þá kom fram á fundinum í gær að Síldarvinnslan á Seyðisfirði geri ráð fyrir að vinnsla hefjist í næstu viku en dregið verði úr umferð í kringum starfsemina eins mikið og unnt er.