Safnaráð hefur tilkynnt að Tækniminjasafninu á Seyðisfirði sé ekki heimilt að geyma verðmætustu gripina á hættusvæði C eftir að aurskriðurnar miklu féllu í desember. Þetta eru munir úr Gömlu símstöðinni sem hafa verið til sýnis að Hafnargötu 44. Meðal þessara gripa eru búnaður til mors-sendinga og allt sem því tilheyrir.

Starfsmenn safnsins eru nú í samstarfi við Þjóðminjasafnið að fara yfir alla munina og meta hvað verður flutt og hverju fargað. Starfsemi safnsins hefur verið í fleiri húsum, svo sem Angró, Skemmunni og Vélsmiðjunni.

Er safnið nú skilgreint á neyðarstigi og björgun muna stendur yfir. Í þrígang á tveimur mánuðum hefur svæði í suðurhluta Seyðisfjarðar verið rýmt vegna ofanflóðahættu.

Skúli Vignisson stjórnarformaður segir framtíðarfyrirkomulag safnsins nú í biðstöðu. „Við erum enn að bíða eftir nýju hættumati og hvort það verði hægt að byggja á staðnum,“ segir hann.

Skemmdir á safnsvæðinu urðu gríðarlegar í skriðunum og hafin er hópfjármögnun til endurbyggingar.

„Það er eiginlega ekkert húsnæði laust hérna á Seyðisfirði þannig að við þurfum sennilega að keyra þessu verðmætasta á Egilsstaði,“ segir Skúli. „Það sem er ekki talið verðmætt verður flutt í skemmu á Strandavegi.“

Tækniminjasafnið á gríðarlegt magn muna og byrjað var að huga að grisjun áður en skriðurnar féllu. Þetta eru munir sem til eru önnur eintök af í öðrum söfnum og þykja ekki mjög verðmætir.

„Safnið á allt of mikið af munum og sérfræðingar Þjóðminjasafnsins aðstoða okkur við að fara yfir safnkostinn. Það er bæði óumhverfisvænt og dýrt að geyma of mikið af munum sem hafa ekkert sérstakt gildi fyrir safnið,“ segir Skúli. Ekki sé nóg að hluturinn sé gamall, hann verði að hafa tengingu við safnið og samfélagið fyrir austan.

Skúli segir verkefnið mjög umfangsmikið og marga koma að starfinu. Reiknar hann með því að verkefnið taki tvo eða þrjá mánuði en þá verður skammt í að hættumat liggi fyrir og hægt verður að skipuleggja starfsemina til frambúðar.

„Við þurfum væntanlega að byggja nýtt húsnæði. Hvort það verður á þessum stað eða annars staðar í bænum verður að koma í ljós,“ segir Skúli. Öruggt sé þó að Tækniminjasafnið flytji ekki frá Seyðisfirði.