Jódís Skúladóttir, þingkona VG, segir ekki skrýtið að aðeins eitt prósent stuðningsmanna Vinstri grænna séu ánægðir með lokað útboð Íslandsbanka eins og fram kom í könnun Fréttablaðsins.

„Augljóslega er þarna eitthvað sem hefur ekki farið vel. Okkar upplifun er að það var talað um að þessi leið væri betri en aðrar til að ná í stóra langtíma kjölfestufjárfesta. Svo þegar listinn er birtur kemur annað á daginn,“ segir Jódís.

Fulltrúar frá Bankasýslunni, sem lögð verður niður samkvæmt yfirlýsingu úr stjórnarráðinu, mæta á teppið hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis næsta mánudag.

„Það sem fólki blöskrar er að sjá handvalda einstaklinga. Fyrir það þarf Bankasýslan að svara,“ segir Jódís.

Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur, telur athyglisvert hve þétt Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, standi við hlið Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Á sama tíma fellur fylgi VG.

„Af því að spjótin standa stanslaust á Katrínu þá langar mig að benda á að hvergi hefur komið fram að Katrín hafi farið óvarlega, hún hefur engin vafasöm ummæli látið falla, hún hefur ekki setið í veislum sem hún átti ekki að vera í,“ segir Jódís. „Katrín er hins vegar forsætisráðherra að halda saman ríkisstjórn þar sem okkar stefna er stór stefna af stjórnarsáttmálanum svo sem í umhverfis- og velferðarmálum. Hún þarf að standa með því og það verður að taka með í reikninginn,“ segir Jódís.