Trúverðugleiki frekari sölu undir að sögn þingmanns stjórnarandstöðunnar.

Sáttaferli er hafið milli Íslandsbanka og Fjármálaeftirlitsins (FME) vegna hugsanlegra lögbrota Íslandsbanka þegar ríkið seldi 22,5 prósenta hlut í bankanum í mars. FME hefur heimild til að leggja stjórnvaldssektir á bankann.

Fram kom í kjölfar hins umdeilda útboðs að starfsmenn bankans voru meðal kaupenda í söluferlinu, lokuðu tilboðsfyrirkomulagi. Athugasemdir voru gerðar um það atriði í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

„Með öllum fyrirvörum þar sem upplýsingar eru takmarkaðar á þessu stigi tel ég afar mikilvægt að stjórnsýslan standi sig í þessu máli. Það er ekki síður mikilvægt að viðbrögð bankans verði góð,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.

Hún segir mikið í húfi fyrir Íslandsbanka en einnig fyrir ríkissjóð og í raun samfélagið allt. Frekari sala velti á að hægt verði að skapa trúverðugleika sem hafi misfarist hjá ríkisstjórninni við sölu bankans.

Ís­lands­banki sendi frá sér til­kynningu í gær til Kaup­hallarinnar um að bankinn kynni að hafa brotið gegn á­kvæðum laga og reglna um Ís­lands­banka og starf­semi hans við söluna. Fram kemur í til­kynningu bankans til Kaup­hallarinnar að stjórn­endur taki frum­mati FME í málinu al­var­lega.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sem hefur gagnrýnt sleifarlag við söluna harðlega, sagðist í gærkvöld ætla að bíða með að tjá sig uns hún hefði aflað sér meiri upplýsinga.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra svöruðu ekki skilaboðum þegar leitað var eftir áliti þeirra rétt fyrir prentun Fréttablaðsins í gærkvöld.

Leiðrétt klukkan 09:10

Í fréttinni kom fram að Fjármálaeftirlit Seðlabankans hafi gefið út tilkynningu um að Íslandsbanki kynni að hafa brotið gegn ákvæðum laga og reglna um Íslandsbanka og starfsemi hans við söluna. Fjármálaeftirlitið hefur ekki gefið út tilkynningu vegna málsins og hefur fréttin því verið leiðrétt.