Banka­reikningar í eigu hinna svo­kölluðu „há­karla“ í Namibíu hafa verið frystir í kjöl­far rann­sóknar á meintri mútu­þægni þeirra í Sam­herja­málinu svo­kallaða. Greint er frá þessu í dag­blaðinu The Namibian en Kjarninn greindi fyrst frá hér­lendra miðla.

Um er að ræða þá Sacky Shang­hala, fyrr­verandi dóms­mála­ráð­herra Namibíu og Tam­son Hatuku­lipi, sem kallaður er Fitty og er tengda­sonur Bern­hard Esau, fyrr­verandi sjávar­út­vegs­ráð­herra landsins. Líkt og Frétta­blaðið hefur greint frá hafa ráð­herrarnir tveir sagt af sér em­bættum.

Í um­fjöllun The Namibian kemur fram að mennirnir tveir hafi farið til Höfða­borgar í Suður-Afríku ný­verið og hafi enn ekki snúið aftur til Namibíu.

Fram kom í frétta­skýringa­þættinum Kveik sem sýndur var í síðustu viku að Fitty hefði kynnt stjórn­endur Sam­herja fyrir tengda­föður sínum, Bern­hard Essau, þá­verandi sjávar­út­vegs­ráð­herra.

Þeir tveir, á­samt Shangala og James Hatuku­lipi hafi síðan myndað kjarnann í hópi valda­manna sem tók við mútu­greiðslum frá Sam­herja fyrir ó­dýrt að­gengi að hrossamakríl. Sam­tals eru þeir sagðir hafa þegið að minnsta kosti 1,4 milljarð króna frá ís­lenska fyrir­tækinu.