Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur í sjötta sinn lagt fram tillögu á Alþingi um kjötrækt. Vill hann að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kanni stöðu kjötræktar og skipuleggi aðgerðaáætlun um innleiðingu slíkrar tækni fyrir íslenskan landbúnað.

„Það er ljósapera í gangi með nýsköpun en það er gömul ljósapera. Þetta er ekki LED-ljós.“

Mikil bylting hefur orðið í landbúnaði um allan heim en með slíkri tækni væri hægt að útrýma þörfinni fyrir fjöldaframleiðslu dýra og votmarkaði. Upptök kórónaveirunnar má einmitt rekja til slíks kjötmarkaðar í Wuhan í Kína. Björn Leví bendir á að mikið af fjölónæmum bakteríum byrja á stöðum þar sem dýr eru ræktuð til manneldis.

Hann er vongóður með tillögu sína og segir það hafa tekið tíma að þroska þetta mál í umræðunni.

„Ég spurði ráðherra um þetta fyrst þegar ég var varaþingmaður og hann hélt að ég væri að tala um próteinduft. Þar byrjaði umræðan á Íslandi,“ segir Björn Leví og hlær.

„Það hefur verið grínast ágætlega í mér út af þessu máli innan veggja í gegnum árin en ég held að fólk sé að kveikja á perunni.“

Gömul ljósapera en ekki LED-ljós

Stjórnvöld tilkynntu í september að Nýsköpunarmiðstöð Íslands yrði lögð niður. Bændur hafa sagt núverandi regluverk flókin og draga úr möguleikum bænda til nýsköpunar. Til dæmis er aukinn áhugi fyrir heimaslátrun og heimavinnslu þar sem sumir bændur þurfa að senda sláturlömb sín einhverja 300 til 400 kílómetra í næsta sláturhús. Aðspurður um viðhorf þingmanna til nýsköpunar segir Björn Leví að nauðsynlegt sé að banka á dyrnar hjá gömlu pólitíkinni.

„Byrjum núna í stað þess að vera í eltingarleik seinna.“

„Það þurfti heimsfaraldur til að kippa stjórninni aðeins í gang með nýsköpun en þetta er á allt of almennum nótum. Það er alveg ágætlega sniðugt að vera með Kríusjóðinn en það er lítið farið í stefnumótun þó að þingsályktanir hafi verið samþykktar í þá átt, eins og til dæmis klasastefnan og stefna um stafræna smiðju. Það þarf að horfa meira til framtíðar og skoða hvernig þetta muni líta út eftir tíu til tuttugu ár. Byrjum núna í stað þess að vera í eltingarleik seinna.“

Bendir hann á að þrátt fyrir að Alþingi hafi samþykkt þessar ályktanir séu þær margar enn ekki komnar í stefnu stjórnvalda. „Það er langur vegur þar til maður kemur þessu í framkvæmd. Það er ljósapera í gangi með nýsköpun en það er gömul ljósapera. Þetta er ekki LED-ljós.“

Ætti að vera auðvelt mál

Tillaga Björns Leví um kjötrækt fór í fyrstu umræðu í síðustu viku og hefur nú farið fyrir atvinnuveganefnd en hingað til hefur hún aldrei komist upp úr nefnd.

„Þetta ætti að vera auðvelt mál í afgreiðslu því við þurfum bara að skoða hvernig landið liggur og búa til einhverja vísa að því að láta þetta raungerast fyrr en síðar. Einhverra hluta vegna erum við enn í klassísku pólitíkinni þar sem er skammtað út úr hnefa hversu mörg mál komast út og það er stundum sársaukafullt að þurfa að velja,“ segir Björn.

Vefmiðilinn Wired tók ræktun kjöts fyrir í umfjöllun fyrir tveimur árum. Hægt er að sjá myndskeið frá þeim hér að neðan.