Leigufélagið Heimavellir er að ganga frá um þriggja milljarða króna lánasamningi við sjóð í stýringu bandaríska sjóðastýringarfyrirtækisins Eaton Vance Management. Þá mun sami sjóður einnig leggja félaginu til um 300 milljónir króna í nýtt hlutafé, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, en fjárfestingin er gerð fyrir milligöngu Fossa markaða. Upplýst var um samkomulagið við Eaton Vance á hluthafafundi Heimavalla í síðustu viku.

Heimavellir, sem er stærsta leigufélag landsins og var með tæplega 2.000 leiguíbúðir í rekstri í lok síðasta árs, stefnir að skráningu á aðalmarkað í Kauphöllinni í byrjun maí. Greint var frá því í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál, á miðvikudag að Heimavellir hefðu fyrir skömmu sagt upp samningi sínum við Kviku banka, sem átti að leiða söluferli á hlutum félagsins við skráningu á hlutabréfamarkað, og ráðið Landsbankann í staðinn. Leigufélagið hefur í hyggju að sækja sér nýtt hlutafé fyrir jafnvirði um 1.500 milljóna króna.

Fjárfestingarsjóðir í stýringu Eaton Vance hafa mjög látið til sín taka á íslenskum hlutabréfamarkaði á undanförnum tveimur árum og eru í hópi stærstu hluthafa í mörgum skráðum félögum. Þá veitti sjóðastýringarfyrirtækið Almenna leigufélaginu, næststærsta leigufélagi landsins, í byrjun þessa árs um fjögurra milljarða króna lán, en sú fjármögnun var einnig fyrir milligöngu Fossa markaða.

Í árslok 2017 nam virði fjárfestingareigna Heimavalla 53,6 milljörðum. Hagnaður leigufélagsins var um 2,7 milljarðar og jókst hann um 500 milljónir á milli ára. Matsbreyting fjárfestingareigna, sem nam rúmlega 3,8 milljörðum á árinu 2017, litaði hins vegar mjög afkomu félagsins. Rekstrarhagnaður Heimavalla fyrir matsbreytingu eigna var þannig 1.622 milljónir króna í fyrra á sama tíma og fjármagnskostnaður félagsins var nærri 1.960 milljónir.

Leigufélagið hefur því að undanförnu unnið mjög að því að reyna að endurfjármagna skuldirnar á hagstæðari lánakjörum. Samtals námu vaxtaberandi langtímaskuldir þess liðlega 32 milljörðum króna í lok síðasta árs.