Bandarískur blaðamaður, Brent Renaud, var skotinn til bana í bænum Irpín fyrir utan Kænugarð í dag. Andríj Nebíjtov, lögreglustjórinn í Kænugarði, tilkynnti andlát hans og sagði að rússneskir hermenn hefðu gert á hann árás. Hér er um að ræða fyrsta erlenda fréttamanninn sem vitað er að hafi verið drepinn við að flytja fréttir frá stríðinu í Úkraínu.

Brent Renaud.
Mynd/Getty

Renaud var með gamlan blaðamannapassa frá The New York Times á sér, en samkvæmt yfirlýsingu frá blaðinu hefur hann ekki verið í starfi hjá þeim frá árinu 2015. Óvíst er fyrir hvaða fjölmiðil hann var að vinna í Úkraínu. Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, sagði að Bandaríkin myndu sjá til þess dauði Renauds hefði „viðeigandi afleiðingar“ í för með sér fyrir Rússa.

Með Renaud í för var bandarískur ljósmyndari að nafni Juan Arredondo, sem slasaðist í árásinni. Að sögn Arredondos voru þeir Renaud í Irpín til þess að taka upp myndbönd af flóttamönnum á leið út úr bænum.