Bandarísku hersveitirnar sem staðsettar hafa verið í norðurhluta Sýrlands voru í gær fluttar yfir landamærin til Íraks. Um eitt hundrað brynvarðir bílar og flutningabílar fluttu hermennina. Reiðir íbúar á yfirráðasvæði Kúrda köstuðu skemmdum ávöxtum og grænmeti í bílalestina.

Reuters-fréttastofan hafði eftir Mark Esper, varnarmálaráðherra í ríkisstjórn Donalds Trump, að til greina komi að hafa hluta hersveitanna nálægt olíulindum í norðausturhluta Sýrlands. Þar gætu þær aðstoðað sveitir Kúrda við að verja lindirnar fyrir mögulegum árásum liðsmanna Íslamska ríkisins.

Breski miðilinn The Guardian hefur eftir hinum 56 ára gamla verslunareiganda Khalil Omar að fólk sé mjög reitt og hafi rétt á því vegna framferðis Bandaríkjamanna. „Við sendum börnin okkar til að berjast með þeim gegn ISIS og svo yfirgefa þeir okkur. Það verður erfitt að jafna sig á þessum svikum og ég vona að við munum þetta í framtíðinni.“

Donald Trump sagði í gær að Bandaríkjamenn hefðu aldrei lofað Kúrdum því að vera á svæðinu í 400 ár til að vernda þá.

Tímabundnu fimm daga vopnahléi á svæðinu lýkur í kvöld. Erdogan Tyrklandsforseti mun í dag ræða stöðuna á fundi með Vladímír Pútín Rússlandsforseta. Erdogan hefur sagt að innrás Tyrkja í Sýrland muni halda áfram eftir að vopnahléinu lýkur. Markmið Tyrkja er að koma á öryggissvæði á 440 kílómetra löngum kafla á landamærunum.

Átök síðustu tveggja vikna eru að mati bresku mannréttindastofnunarinnar SOHR talin hafa kostað 120 óbreytta borgara lífið og um 470 liðsmenn hersveita Kúrda. Tyrknesk stjórnvöld halda því hins vegar fram að 765 hryðjuverkamenn hafi fallið en engir óbreyttir borgarar.

Þá hafa um 300 þúsund manns yfirgefið heimili sín og hafa margir Kúrdar flúið yfir landamærin til Íraks.

UNICEF greinir frá því að vatnsdælustöðin A’llouk sem sér um 400 þúsund manns fyrir hreinu vatni hafi nú verið óvirk á aðra viku eftir innrás Tyrkja.