Bandarískt barn var lagt inn á sjúkrahús nýverið en það greindist með E. coli-sýkingu. Grunur leikur á að rekja megi smitið til faraldursins hér á landi og á upptök sín á ferðaþjónustubænum Efstadal II.

Frá þessu greindi Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í Vikulokunum á Rás 1 í morgun. Hann sagðist hafa fengið fregnir af máli bandaríska barnsins en enn eigi eftir að fá staðfestingu á því.

Það sé hins vegar „ansi grunsamlegt“ þar sem barnið hafi ferðast um Efstadal II líkt og þau 17 börn sem smitast hafa hér á landi. Heilbrigðisyfirvöld á Íslandi segir hann vinna náið með heilbrigðisstofnunum erlendis og ferðaþjónustufyrirtækjum.

Meðgöngutími sýkingarinnar er sjö til tíu dagar en ráðist var í aðgerðir í Efstadal II hinn 4. júlí. Þá hafi ísframleiðsla verið stöðvuð og samgangur við kálfana þar bönnuð. Auk þess var tekið á hreinlætisaðgerðum í bænum en aðgerðirnar hafa verið í höndum heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Matvælastofnunar.

„Vonandi dugar það til að stoppa þetta,“ sagði Þórólfur.

Engin sérstök leið sé til að meta hversu margir hafi gert sér leið í Efstadal á tímabilinu sem um ræðir. Hann kveðst sjálfur hafa komið þangað oftsinnis, þykir bærinn skemmtilegur og vel rekinn.

Nokkrir dagar geti liðið á meðan sýkingar greinast en á morgun verða liðnir tíu dagar frá því ráðist var í aðgerðirnar. Fari svo að einhver smit greinist eftir 4. júlí sé ljóst að ráðast gæti þurft í alvarlegri aðgerðir.