Banda­rísk yfir­völd eru byrjuð að flytja her­menn til mið-austur­landa. Í frétt á vef New York Times segir að Banda­ríkja­menn hafi hafið flutning á bæði her­mönnum og búnaði til Kú­veit við Persa­flóa.

Í fréttinni segir að fjögur þúsund her­menn muni leggja af stað frá Banda­ríkjunum til Kú­veit á næstu dögum og að í morgun hafi hafist flutningur á búnaði. Fyrir eru 750 banda­rískir her­menn í Kú­veit. Flutningarnir eru sagðir vera for­varnar­að­gerð til þess að bregðast við „aukinni ógn við banda­ríska ríkis­borgara og fyrir­tæki.“

Mikil spenna er á milli Banda­ríkjanna og Íran eftir að banda­ríski herinn felldi íranska hers­höfðingjann Qassim Suleimani í dróna­á­rás í morgun og er óttast að á­rásin gæti leitt til stríðs­á­taka í mið-austurlöndum.

Suleimani hafi verið að skipu­leggja árás

Donald Trump, Banda­ríkja­for­seti, hefur blásið á þá gagn­rýni að á­rásin gæti valdið stríði á milli Banda­ríkjanna og Íran og sagði að Suleimani hafi verið drepinn til þess að koma í veg fyrir stríð.

„Suleimani var að skipu­leggja hrylli­lega árás á banda­ríska diplómata og starfs­menn hersins, en við stóðum hann að verki og drápum hann. Við gripum til þessara ráða til þess að koma í veg fyrir stríð, ekki til þess að byrja það,“ sagði Trump í sam­tali við frétta­menn í dag.

Hann sagði Banda­ríkin ekki fara fram á stjórnar­skipti í Íran, en að stjórn­völd þar yrðu að láta af yfir­gangs­semi sinni á svæðinu.

Írakar ó­á­nægðir

Yfir­völd í Írak eru ó­á­nægð með árás Banda­ríkja­manna og íraska þingið mun halda neyðar­fund núna um helgina til þess að ræða hana. For­sætis­ráð­herra landsins hefur sagt að á­rásin sé „blygðunar­laust brot á full­veldi Íraks og árás á heiður landsins.“