Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, er sagður vera „vænisjúkur“ um öryggi sitt og vilja bera skotvopn hér á landi.

Fram kemur í ítarlegri umfjöllun á vef CBS sjónvarpsstöðvarinnar að Gunter hafi haft hug á því að biðja bandaríska utanríkisráðuneytið um að beita sér fyrir að íslensk stjórnvöld veittu honum sérstakt leyfi til að bera byssu.

Þetta hefur CBS eftir fjölda ónefndra stjórnarerindreka, embættismanna og aðila sem þekkja til málsins.

Stuðningsmaður Trumps

Þar að auki hafi hann óskað eftir því að fá brynvarðan bíl og vesti sem geti varið hann gegn hnífsstungum.

Gunter var skipaður af Donald Trump Bandaríkjaforseta og er mikill stuðningsmaður forsetans. Hann hefur enga fyrri reynslu úr utanríkisþjónustu en studdi ríkulega við Repúblikanaflokkinn á meðan hann starfaði sem húðlæknir í Kaliforníu.

Ummæli sendiherrans um „kínaveiruna“ vakti nokkra reiði meðal Íslendinga fyrr í vikunni.

Gunter er sagður hafa skapað erfitt vinnuumhverfi í sendiráðinu. Sjö eru sagðir hafa gegnt stöðu staðgengils hans frá því að Gunter tók við sendiherrastöðunni. Sá fyrsti var búinn að undirbúa sig í meira en ár þegar sendiherrann kom í veg fyrir að hann tæki við stöðunni eftir að hafa hitt hann einu sinni á fundi. Sá næsti entist í sex mánuði sem staðgengill sendiherra.

Móðgun við Íslendinga

Bandaríska utanríkisráðuneytið vildi ekkert gefa upp um hvort raunveruleg ástæða sé til að hafa áhyggjur af öryggi sendiherrans en CBS hefur eftir embættismönnum að margoft sé búið að upplýsa Gunter um að engin sérstök hætta sé til staðar.

Þá bendir CBS á að Ísland hafi lengi verið talið eitt öruggasta ríki heims.

Þrátt fyrir það hafi sendiráðið á Íslandi nýlega auglýst í íslenskum dagblöðum eftir lífvörðum í fullt starf.

Fram kemur í fréttinni að íslenska utanríkisráðuneytið hafi ekki viljað gefa upp hvort starfsbræður þeirra vestanhafs hafi óskað eftir því að Gunter fengi að bera byssu.

Samkvæmt heimildarmönnum CBS hér á landi var beiðnin aldrei send. Að sögn þeirra tókst samstarfsmönnum að sannfæra sendiherrann um að slík ósk gæti talist sem móðgun við Íslendinga.

Fréttin hefur verið uppfærð.