Bandaríkjastjórn hefur nú tilkynnt Sameinuðu þjóðunum með formlegum hætti um úrsögn sína úr Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO).

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lengi verið ósáttur með viðbrögð WHO við heimsfaraldri kórónaveiru. Hann lýsti því yfir í maí síðastliðnum að stjórn hans ætlaði sér að slíta öll tengsl við stofnunina.

Þá hefur hann haldið því fram að Kínverjar hafi lagt stofnunina undir sig og boðað úttekt á viðbrögðum hennar við faraldrinum.

Bandaríkin eru einn stærsti fjárhagslegi bakhjarl stofnunarinnar sem er hluti af Sameinuðu þjóðunum og því ljóst að ákvörðunin mun hafa mikil áhrif á starfsemi hennar.

Á síðasta ári veittu Bandaríkin um 533 milljónum Bandaríkjadala til WHO eða um 74 milljörðum íslenskra króna, er fram kemur í frétt The New York Times.

Samkvæmt lögum ber bandarískum stjórnvöldum að gefa stofnuninni árs fyrirvara á úrsögn sinni og tekur hún gildi þann 6. júlí á næsta ári.