Banda­ríkja­menn binda vonir við að geta hafið bólu­setningar við Co­vid-19 strax 11. desember næst­komandi, eftir tæpar þrjár vikur. Dr. Moncef Slaoui, sem hefur farið fyrir vinnu banda­rísku ríkis­stjórnarinnar við að þróa bólu­efni greindi frá þessu í dag í sam­tali við frétta­stofu CNN.

Lyfja­fyrir­tækið Pfizer til­kynnti um það fyrr í mánuðinum að prófanir á bólu­efninu hafi bent til þess að það virki gegn veirunni í 95 prósent til­vika. Fyrir­tækið sótti um neyðar­markaðs­leyfi fyrir lyfinu hjá Mat­væla og lyfja­eftir­lits­stofnun Banda­ríkjanna síðasta föstu­dag. Nefnd stofnunarinnar kemur saman til fundar þann 10. desember næst­komandi og tekur þá á­kvörðun um hvort veita eigi leyfið.

Slaoui sagði í dag að ef leyfið fæst verði hægt að koma bólu­efninu í dreifingu strax daginn eftir, þann 11. desember. „Okkar plan er að koma bólu­efninu á bólu­setningar­stöðvar innan við 24 klukku­stundum eftir að við fáum leyfi, svo ég býst við því að það takist daginn eftir að leyfið fæst, annað hvort þann 11. desember eða þann 12.,“ sagði hann.

Íslendingar fá bóluefnið ekki strax

Tak­markað magn er að sjálf­sögðu til af fyrstu skömmtum bólu­efnisins og ljóst að fólk í for­gangs­hópum fái það fyrst. Þeim hópum til­heyra meðal annars heil­brigðis­starfs­fólk, aldrað fólk og fólk með undir­liggjandi sjúk­dóma, sem gerir það afar við­kvæmt fyrir Co­vid-19.

Ís­lendingum hefur verið tryggður að­gangur að bólu­efni Pfizer. Það gerðist er fram­kvæmda­stjórn Evrópu­sam­bandsins undir­ritaði samning við fyrir­tækið um kaup á 200 milljónum skammta fyrir rúmri viku síðan. Ís­landi er tryggður sami að­gangur og aðildar­ríkjum ESB.

Slaoui sagði ekkert um það hve­nær hægt verði að senda skammta af efninu til Evrópu en það verður væntan­lega ekki hægt strax einum eða tveimur dögum eftir að leyfið fæst, ef það fæst. Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir hefur sagt það á upp­lýsinga­fundum al­manna­varna á síðustu vikum að hann vonist til að hægt verði að hefja bólu­setningar á Ís­landi snemma á næsta ári.