Sending af íslenskum pylsum var stöðvuð í Bandaríkjunum vegna þess að þær innihalda svínakjöt. Sendingin var frá fyrirtækinu Top Iceland, sem selur íslensk matvæli og sælgæti til útlanda. Hefur fyrirtækið nú opnað mál hjá bandaríska matvælaeftirlitinu.
„Þetta hefur aldrei verið vandamál áður. Við erum að reyna að vinna í þessu með sendiráðinu í Washington til að við getum haldið áfram að gleðja fólkið í Bandaríkjunum með pylsum,“ segir Heiðdís Björk Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Top Iceland, sem er lítið fjölskyldufyrirtæki í Grundarfirði.
Top Iceland selur mest til Bandaríkjanna, bæði til Íslendinga þar og heimamanna. Meðal viðskiptavina eru fyrrverandi hermenn af vellinum í Keflavík sem ánetjuðust íslensku góðgæti. Einnig Bandaríkjamenn sem hafa dvalið hér í öðrum tilgangi og ferðamenn sem hafa kynnst íslenskum mat.
„Bandaríkjamenn eru furðu hrifnir af pylsum,“ segir Heiðdís. „En þeir eru líka hrifnir af vissu sælgæti, til dæmis Þristi og Bingókúlum. Þeir kaupa rosa mikið magn af því nammi.“
Þrátt fyrir vandræði við pylsusöluna er nóg að gera hjá Top Iceland fyrir jólin. Aðspurð um hver sé vinsælasta varan um þessar mundir segir Heiðdís það vera jólaölið sem og malt og appelsín. „Það er gott að bæta upp fyrir pylsuleysið,“ segir hún.