Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lýsti því yfir í kvöld að Bandaríkin telji landtökusvæði Ísraela í Palestínu ekki vera ólögleg.

Þetta er þvert á afstöðu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að nýbyggðir á landtökusvæði eins og á Vesturbakkanum brjóti gegn Genfarsáttmálanum, sem og fyrrum afstöðu Bandaríkjanna frá árinu 1978, um að herseta og byggðir Ísraela væru brot á alþjóðalögum.

Pompeo segir að ísraelsk dómsyfirvöld verði að skera úr um lögmæti slíkra landtökusvæða.

Yfirlýsing Pompeo er talin var stuðningsyfirlýsing við Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael. Netanyahu sagði stefnubreytingu Bandaríkjanna vera skref í rétta átt og hvatti aðrar þjóðir til að taka stöðu með Bandaríkjamönnum. Um væri að ræða bragarbót á sögulegum órétti.

Saeb Erekat, aðalsamningamaður Palestínumanna, segir ákvörðun Bandaríkjanna ógna stöðugleika heimsins. Hann segir hættu á að „lögmál frumskógarins“ muni leysa af hólmi alþjóðalög.

Tzipi Livni, fyrrverandi utanríkisráðherra Ísraels og Saeb Erekat, samningsmaður Palestínumanna, leiða friðarviðræður milli Ísrael og Palestínu.
Fréttablaðið/Getty images