Banda­ríkja­menn sem eru bú­settir á Ís­landi hafa hrundið af stað form­legri undir­skrifta­söfnun þar sem for­seti Banda­ríkjanna, Donald Trump, er hvattur til að fjarlægja Jef­frey Ross Gunt­her, úr embætti sem sendi­herra Banda­ríkjanna á Íslandi.

Vilja Banda­ríkja­mennirnir að Gunt­her verði fjar­lægður vegna ó­á­byrgrar hegðunar. Í yfir­lýsingu með undir­skrifta­söfnunin segir að ó­rök­studdur ótti Gunt­her um að hann sé í hættu á Ís­landi sé hátt­semi sem hæfi ekki bandarískum diplómata. Segir einnig að hegðun sendi­herrans hefur slæm á­hrif á sam­band Banda­ríkjanna og Ís­lands.

Í fréttum í gær kom fram að Gunther óttast um öryggi sitt hér á landi og vill hann bera skotvopn. Þar að auki hefur hann óskað eftir því að fá brynvarðan bíl og stunguvesti til að geta varið sig.

Í ítarlegri umfjöllun CBS sjónvarpstöðvarinnar í gær var sendiherrann sagður vænisjúkur.

„Ísland er eitt friðsælasta land í heimi með einhverja lægstu glæpatíðni heims. Hegðun Gunther sendiherra í tengslum við órökstuddan ótta hans um líkamsmeiðingar á meðan hann er á Íslandi sæmir ekki bandarískum diplómata,“ segir í undirskriftasöfnuninni.

Undir­skrifta­söfnunin fer fram á We the Peop­le vef­síðunni, sem er undir­síða Hvíta hússins í Banda­ríkjunum. Ríkis­stjórn Barack Obama kom vef­síðunni á fót árið 2011 með það að marki að smærri málefni gætu náð athygli ríkisstjórnarinnar.

Öll mál­efni sem fá yfir 100.000 undir­skriftir á 30 dögum fá form­legt svar frá ríkis­stjórn Banda­ríkjanna. Eins og staðan er núna hefur einunigs 49 manns sett nafn sitt við það að Gunt­her verði rekinn. Ríkisstjórn Donald Trump tilkynnti í desember 2017 að hún ætlaði að leggja síðuna niður og koma á fót nýjum og betri vettvangi fyrir svona undirskriftasafnanir sem myndi spara skattgreiðendum 1 milljón bandaríkjadala á ári. Ekki hefur orðið af því enn.

Sam­kvæmt reglum sem ríkis­stjórn Obama setti þarf hvert mál­efni að fá 150 undir­skriftir á 30 dögum annars verður undirskriftasöfnunin fjar­lægð úr leitar­vélinni á vefsíðu Hvíta hússins.

Undirskriftarsöfnunin fer fram hér