Fjöl­margir Bandaríkjamenn og aðrir víða um heim minnast nú Geor­ge Floyd en dagurinn í dag markar eitt ár frá því að Floyd lést eftir að lög­reglu­maðurinn Derek Chau­vin kraup á hálsi hans við hand­töku í níu mínútur.

Mynd­band af and­láti Floyd fór í dreifingu á netinu en þar mátti heyra Floyd segja við lög­reglu að hann gæti ekki andað. Að sögn lög­reglu hafði Floyd, sem er svartur, veitt lög­reglu við­nám við hand­tökuna en hann var grunaður um skjala­fals. Málið vakti mikla reiði víða og var kast­ljósi varpað á kerfis­bundið mis­rétti innan lög­reglunnar.

Ári síðar er krafan um breytingar enn jafn há­vær og í dag verður Floyd minnst víða um Banda­ríkin. Bróðir Floyds, Philonise, greindi frá því í sam­tali við CNN í dag að hann telji að ýmis­legt hafi breyst frá því að bróðir hans lést, þrátt fyrir að breytingarnar gerðust hægt.

Hitta forsetann og þingmenn

Fjöl­skylda Floyds, þar á meðal systir hans, Brid­gett, dóttir hans, Gianna, og móðir hans, R­oxi­e, munu hitta Joe Biden Banda­ríkja­for­seta í Hvíta húsinu síðar í dag en fundur þeirra fer fram í ein­rúmi. Að sögn Jen P­saki, upp­lýsinga­full­trúa Hvíta hússins, vill Biden ræða málin af al­vöru við fjöl­skylduna.

Þá mun fjöl­skyldan einnig hitta Nan­cy Pelosi, for­seta full­trúa­deildar Banda­ríkja­þings, og aðra þing­menn til að ræða lög­gæslu­frum­varp sem er nú til um­ræðu á þinginu. Full­trúa­deildin sam­þykkti frum­varpið síðast­liðinn mars en frum­varpið er nefnt í höfuðið á Floyd og er ætlað að koma í veg fyrir mis­ferli lög­reglu.

Í Minnea­polis munu aðrir með­limir fjöl­skyldunnar vera við­staddir minningar­at­hafnir, þar af einn við­burð sem er ætlað að fagna lífinu þar sem boðið verður upp á leiki, mat og skemmti­at­riði. Í Dallas mun síðan kröfu­ganga fara fram og á netinu verður tón­leikum til heiðurs Floyd streymt.

Refsing Chauvin ákveðin í júní

Líkt og áður segir lést Floyd af hendi þá­verandi lög­reglu­mannsins Derek Chau­vin en þann 20. apríl síðast­liðinn var Chau­vin dæmdur sekur fyrir að hafa orðið Floyd að bana þann 25. maí 2020. Chau­vin var dæmdur í þremur á­kæru­liðum og verður refsing hans á­kveðin 25. júní næst­komandi.

Þrír aðrir lög­reglu­menn sem hafa verið á­kærðir í tengslum við málið, þar sem þeir stóðu hjá á meðan Floyd barðist fyrir lífi sínu, bíða enn eftir að á­kærurnar gegn þeim verða teknar fyrir. Réttar­höldin yfir þeim munu fara fram þann 7. mars 2022 en einka­mál gegn þeim verður tekið fyrir í ágúst.

>/center>