Bandaríska varnarmálastofnunin (DOD) mun reisa sérstaka bækistöð fyrir Norðurslóðir. Helsta ástæðan fyrir þessu er aukin hernaðarumsvif Rússa á svæðinu. John F. Kirby, upplýsingafulltrúi varnarmálaráðuneytisins Pentagon, tilkynnti þetta á miðvikudag.

DOD rekur nú þegar fimm sambærilegar stöðvar fyrir viss svæði. Fyrir Mið-Austurlönd, Ameríkurnar, Austurlönd fjær og Eyjaálfu, Evrópu og Afríku. Stöðvarnar eru notaðar til þess að efla samskipti við bandalagsþjóðir á svæðunum, veita ráðgjöf og semja um þjálfun og vopnasölu, svo eitthvað sé nefnt.

Á svæði hinnar nýju bækistöðvar, sem nefnd verður í höfuðið á Ted Stevens, fyrrverandi þingmanni Alaska, eru auk Bandaríkjanna, Norðurlöndin, Kanada og Rússland. Ekki hefur verið tilkynnt um hvar hún verður staðsett.

„Ted Stevens-miðstöðin mun búa til nýjan samráðsvettvang, bæði fyrir stofnanir Bandaríkjanna, sem og við bandamenn okkar og annarra sem deila hagsmunum um friðsælar Norðurslóðir,“ sagði Kirby.

Bæði Rússar og NATO-ríkin hafa haldið heræfingar til að sýna mátt sinn og megin undanfarið. Á næsta ári munu 40 þúsund hermenn NATO-ríkjanna taka þátt í stærstu heræfingu á Norðurslóðum síðan í kalda stríðinu, Cold Response 2022.

Rússar hafa byggt upp gamla sovéska stöð á eyjunni Nagurskaya, langt norður í Íshafi, og getur hún nú þjónustað bæði sprengjuvélar og orrustuvélar. Rússar hafa einnig byggt upp herstöðvar á fleiri eyjum í Íshafinu, svo sem Kotelny og Wrangel. ■