BlackRock, eitt stærsta eignastýringarfyrirtæki Bandaríkjanna, mun fjármagna íslenska drykkjarvöruframleiðandann Icelandic Glacial um ríflega 4,4 milljarða króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Jóni Ólafssyni, stjórnarformanni Icelandic Glacial.

Icelandic Glacial er vörumerki félagsins Icelandic Water Holdings sem rekur átöppunarverksmiðju í Þorlákshöfn. Fyrirtækið selur lindarvatn úr Ölfusinu og hefur það verið á mikilli sigurför víða um heim á undanförnum árum.

„Við förum inn í þetta verkefni full tilhlökkunar og bjartsýni,“ segir Dan Worrel, framkvæmdastjóri Black Rock US Private Credit. sem er nýr stjórnarmaður í Icelandic Glacial.

„Við höfum fylgst með þróun og vexti vörumerkisins í talsverðan tíma og erum staðráðin í því að leggja allt okkar af mörkum til þess að fjármagna og taka þátt í enn frekari umsvifum og markaðshlutdeild Icelandic Glacial í Bandaríkjunum og víðar um heiminn.“

Jafnframt efnir Icelandic Glacial til hlutafjáraukningar að fjárhæð 31 milljón Bandaríkjadala eða tæplega fjögurra milljarða íslenskra króna sem boðin verður bæði núverandi og nýjum fjárfestum til þess að renna styrkari stoðum undir áframhaldandi vöxt.

„Það er ákaflega ánægjulegt að fá þessa kröftugu innspýtingu úr skuldabréfasjóðum BlackRock sem er á meðal öflugustu sjóðastýringarfyrirtækja heims. Þessi nýja fjármögnun er mikil viðurkenning á þeim árangri sem við höfum náð á undanförnum árum í að hasla okkur alþjóðlegan völl sem eitt af leiðandi vörumerkjum í hágæða drykkjarvatni,“ segir Jón Ólafsson stofnandi og stjórnarformaður Icelandic Glacial.

Icelandic Water Holdings tapaði 18,1 milljónum dollara, sem samsvarar um 1,9 milljörðum króna árið 2016 og jókst tapið um 650 milljónir króna milli ára. Stærsta eign  Icelandic Water Holdings er vatnsból sem það metur á tæpar 100 milljónir dollara, ríflega 10 milljarða króna.