Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna, FDA, hefur verið ráðlagt að veita bandarískum yfirvöldum neyðarheimild til notkunar bóluefnis Pfizer og BioNTech gegn COVID-19, en ráðgjafanefnd stofnunarinnar um bóluefni og önnur líffræðileg efni samþykkti málið á fundi sínum í gær.

Stofnunin mun taka ráðleggingar nefndarinnar til íhugunar en bólusetningar geta ekki hafist fyrr en Sóttvarnamiðstöð Bandaríkjanna, CDC, samþykkir bóluefnið. Ráðgjafanefnd CDC mun funda um málið í dag og er gert ráð fyrir að nefndin muni kjósa um það á sunnudaginn hvort mælt verði með bóluefninu.

Mikilvægt að almenningur sé upplýstur

Anthony Fauci, helsti sérfræðingur bandarískra stjórnvalda í smitsjúkdómum, sagði í samtali við CNN að um væri að ræða „mikilvægt skref.“ Hann sagði þó mikilvægt að halda almenningi vel upplýstum og ítrekaði að ákvörðun um bóluefnið yrði ekki tekin af pólitískum ástæðum, heldur því óháðar stofnanir hefðu mælt með því.

„Mín von og áætlun er að við náum að bólusetja fólk í massavís þannig við náum hárri prósentu af fólksfjölda, að þegar við förum inn í haustið getum við verið örugg með að fólk fari í skóla og sér þar öruggt,“ sagði Fauci en nefnd FDA mun einnig funda um mögulega neyðarheimild fyrir bóluefni Moderna í næstu viku.

Gætu bólusett milljónir manna fljótlega

Heilsu- og félagsmálaráðherra Bandaríkjanna, Alex Azar, greindi frá því fyrr í vikunni að Bandaríkin væru búin að tryggja sér aðgang að nokkrum bóluefnum. Þá væri hægt að bólusetja 20 milljón Bandaríkjamenn fyrir lok mánaðar, 50 milljón fyrir lok janúar, og að minnsta kosti 100 milljón fyrir lok fyrsta ársfjórðungs 2021. Þá verði hægt að bólusetja alla aðra fyrir lok annars ársfjórðungs.

Ef Bandaríkin samþykkja bóluefni Pfizer og BioNTech feta þau í fótspor Breta sem samþykktu bóluefnið í síðustu viku og hófu bólusetningar í vikunni. Bretar gáfu þá út neyðarheimild fyrir notkun bóluefnisins þar sem Bretland er háð leyfi Lyfjastofnunar Evrópu þangað til að þau ganga úr Evrópusambandinu um áramótin.

Vonarglæta bóluefnisins

Bandaríkin hafa komið hvað verst út úr kórónaveirufaraldrinum en staðfestum tilfellum, dauðsföllum og spítalainnlögnum fjölgar hratt. Eins og staðan er í dag hafa rúmlega 15,6 milljón manns greinst með veiruna og rúmlega 292 þúsund látist. Til samanburðar hafa rúmlega 69,7 milljón manns greinst á heimsvísu og tæplega 1,59 milljón manns látist.

Árangur í þróun bóluefna gegn COVID-19 hefur gefið mörgum þjóðum heims vonarglætu en þrjú bóluefni sem hafa verið mest til umræðu, það er bóluefni Pfizer, bóluefni Moderna, og bóluefni AstraZeneca, eru öll með yfir 90 prósenta virkni samkvæmt rannsóknum. Margar þjóðir heims hafa greint frá því að hægt verði að hefja bólusetningu fljótlega eftir áramót.