Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði í færslu á Twitter í dag að það væri tímabært að Bandaríkin myndu viðurkenna óskorað vald, fullveldi, Ísraela yfir Gólanhæð, sem þau hertóku frá Sýrlandi árið 1967.

Trump lýsti því yfir í færslunni á Twitter að hásléttan skipti öllu máli fyrir öryggis- og hernaðarmál Ísraela og stöðugleika á svæðinu.

Ísraelar lýstu því yfir árið 1981 að þeir stjórni Gólanhæð en önnur ríki hafa ekki viðurkennt yfirlýsingu Ísraela. Sýrland hefur ítrekað reynt að fá stjórn yfir svæðinu aftur frá því hernámi Ísraela árið 1967.

Forsætisráðherra Ísrael, Benjamin Netanyahu, þakkaði Trump fyrir í færslu sem hann birti stuttu seinna. Hann sagði að á sama tíma og Íranir reyni að nota Sýrland til að eyðileggja Ísrael sýni forseti Bandaríkjanna dirfsku með því að samþykkja fullveldi þeirra yfir Gólanhæðinni.

Samkvæmt frétt BBC hefur ríkisstjórn Sýrlands ekki gefið frá sér nein viðbrögð við yfirlýsingunni.