Joe Biden Bandaríkjaforseti lýsti yfir á blaðamannafundi í gær að Finnland og Svíþjóð nytu fulls stuðnings Bandaríkjanna í umsóknarferli þeirra um aðild að NATO.

Þá sagði Biden ríkin nú þegar uppfylla öll helstu inngönguskilyrði NATO og að innganga þeirra myndi styrkja bandalagið mikið.

Forsetinn tók á móti forsætisráðherrum Svíþjóðar og Finnlands, Sauli Niinisto og Magdalenu Andersson, í Washington. Ræddu þau næstu skref. Norrænu ríkin tvö hafa lengi verið hlutlaus en breyttu um stefnu í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu.

Ráðamenn í Rússlandi hafa mótmælt þessu útspili og varað ríkin tvö við óljósum afleiðingum og hefndaraðgerðum. Þá hafa stjórnvöld í Tyrklandi, einu aðildarríkja NATO, lýst sig mótfallin inngöngu ríkjanna. Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, sakaði löndin tvö um að styðja við hryðjuverkasamtök og að skjóta skjólshúsi yfir kúrdíska aðskilnaðarsinna sem flúið hafa til landa þeirra.

Yfirvöld í Tyrklandi krefjast þess að Finnland og Svíþjóð framselji einstaklinga sem Tyrkir telja tengjast samtökum sem þeir skilgreina sem hryðjuverkasamtök.

Á blaðamannafundinum í gær sagði Sauli Niinisto að hann væri reiðubúinn að ræða áhyggjur og efasemdir yfirvalda í Tyrklandi. Hann tók ekki afstöðu til kröfu Tyrkja um að framselja hryðjuverkamenn en sagði stjórnvöld í Finnlandi fordæma hryðjuverkastarfsemi í allri sinni mynd.