Bandaríkin ætla að opna ræðisskrifstofu í Nuuk á Grænlandi en Ísland er eina erlenda ríkið sem hefur sendiskrifstofu í Grænlandi. Fréttavefur Associated Press greindi frá.

Feiknamikil umræða hefur átt sér stað um allan heim vegna áhuga Donald Trump, Bandaríkjaforseta, á því að kaupa Grænland. Trump frestaði opinberri heimsókn sinni til Danmerkur vegna þess að Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur vildi ekki ræða sölu á Grænlandi.

Áhugi forsetans á þessum landkaupum er þó ekki fordæmalaus en árið 1946 bauðst Truman forseti fyrir hönd Bandaríkjanna að kaupa Grænland af Danmörku á hundrað milljónir Bandaríkjadollara. Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna reyndi einnig að kaupa Grænland og Ísland af Danmörku árið 1867.

Auka umsvif á Norðurslóðum

Sendiráð Bandaríkjanna í Kaupmannahöfn hefur nú þegar ráðið sérstakan tengilið við Grænland og stefna þeir á að ráða sjö starfsmenn til starfa hjá ræðisskrifstofunni sem þeir ætla sér að opna á næsta ári.

Þá er talið að ræðisskrifstofan sé hluti af áætlun Bandaríkjanna um að auka umsvif á Norðurslóðum. Bandaríkin hafa einnig sýnt Íslandi mikinn áhuga. Bandaríkjaher og Atlantshafsbandalagið (NATO) áætla að verja samtals um fjórtán milljörðum króna til uppbyggingar og viðhalds á varnarmannvirkjum hér á landi á næstu árum. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að áform Bandaríkjahers um uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli feli ekki í sér að endurvekja gömlu herstöðina.

Hafa áhyggjur af Kínverjum og Rússum

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna sendu frá sér tilkynningu í maí að Kínversk yfirvöld væru að reyna að teygja anga hers síns of langt. Telja þeir að Kína muni notfæra sér nýja siglingaleið um norðurskautið, sem hefur myndast vegna hækkandi hitastigs jarðar, fyrir hernaðar kafbáta.

Bretar jafnt sem Bandaríkjamenn hafa einnig áhyggjur af hernaðaruppbyggingu Rússa á norðurslóðum sem hafa aukist verulega á síðustu tveimur til þremur árum.