Alls greindust tæplega 115 þúsund manns með COVID-19 síðastliðinn sólarhring í Bandaríkunum en um er að ræða 26. daginn í röð þar sem fleiri en 100 þúsund tilfelli kórónaveirusmits greinast á einum sólarhring þar í landi. Þá voru 862 dauðsföll af völdum COVID-19 skráð.

Að því er kemur fram í frétt CNN um málið eru einhver tilfelli frá fimmtudeginum og föstudeginum þar sem nokkur ríki höfðu ekki greint frá smitunum vegna þakkargjörðarhátíðarinnar í Bandaríkjunum. Þá er einnig talið að hluti af þeim rúmlega 200 þúsund tilfellum sem greint var frá í gær hafi verið frá fimmtudeginum.

Engu að síður virðist faraldurinn vera í vexti í nokkrum ríkjum, til að mynda í New York, Arizona og Kaliforníu þar sem rúmlega 22 þúsund tilfelli smits voru skráð síðastliðinn sólarhring samtals, og í Washington, D.C., var metfjöldi tilfella á einum sólarhring skráð.

Fleiri en 265 þúsund látist í Bandaríkjunum

Sérfræðingar hafa nú varað við því að erfið staða sé fram undan þar til að bóluefni við COVID-19 kemur á markað en auk þess sem að fjöldi nýgreindra smita eru í hámarki í Bandaríkjunum hefur innlögnum á spítala fjölgað gífurlega. Varað er við sérstaklega erfiðum vetri og er búist við að fjöldi dauðsfalla muni tvöfaldast.

Samkvæmt upplýsingum John Hopkins háskólans hafa nú rúmlega 13,2 milljón manns smitast af veirunni í Bandaríkjunum og eru dauðsföll nú orðin fleiri en 265 þúsund. Langflest staðfest tilfelli og dauðsföll hafa verið skráð í Bandaríkjunum.

Tólf lönd með fleiri en milljón smit

Á heimsvísu hafa rúmlega 62 milljón smitast og tæplega 1,45 milljón manns látist. Alls hafa 12 lönd nú skráð fleiri en milljón tilfelli smits en á eftir Bandaríkjunum eru Indland og Brasilía með næst flest smit, tæplega 9,3 milljón og rúmlega 6,2 milljón.

Fimm Evrópulönd hafa skráð fleiri en milljón tilfelli en Þýskaland slóst í hópinn með Frakklandi, Ítalíu, Bretlandi og Spáni í gær. Þá styttist í að Pólland skrái fleiri en milljón tilfelli. Önnur lönd greindu frá því að metfjöldi smita hafi greinst síðastliðinn sólarhring, þar á meðal Tyrkland og Japan.

Fjölmargar þjóðir bíða nú í ofvæni eftir komu bóluefnis, þar á meðal Ísland, en ljóst er að nokkur mismunandi bóluefni verði tilbúin á næsta ári. Ljóst er þó að erfiður vetur sé framundan og að lítið svigrúm sé fyrir tilslakanir á sóttvarnaráðstöfunum landanna.