Hernaðar­að­gerðir Kín­verja við Taí­van eru ó­rétt­lát við­brögð við heim­sókn Nan­cy Pelosi, for­seta full­trúa­deildar Banda­ríkjanna, til Taí­van fyrr í vikunni, að sögn utan­ríkis­ráð­herra Banda­ríkjanna, Ant­hony Blin­ken. Fréttastofan Reuters fjallar um málið.

Kín­verski herinn hóf í gær fjögurra daga hernaðar­æfingar við strendur Taí­van, einungis nokkrum dögum eftir heim­sókn Pelosi til Taí­van. Taí­vanski herinn segist undir­búa sig undir stríð en sækist þó ekki eftir því.

Kín­versk stjórn­völd hafa um ára­bil litið svo á að Taí­van sé ó­að­skiljan­legur hluti af Kína, eða allt frá því að þjóð­ernis­sinnar flúðu Kína árið 1949 til Taí­van eftir ó­sigur í borgara­styrj­öld gegn kín­verska kommún­ista­flokknum.

Rúm­lega eitt hundrað her­flug­vélar og tíu her­skip hafa tekið þátt í her­æfingunni. Kín­verjar eru æfir vegna heim­sóknar Pelosi til eyjunnar og hafa til­kynnt við­skipta­þvinganir gegn henni. Ekki hefur enn verið gefið út hvers eðlis þessar við­skipta­þvinganir séu, en slíkar þvinganir eru oftar en ekki tákn­rænar.

„Mikil­vægar hernaðar­æfingar“

Á há­degi að staðar­tíma í gær til­kynnti CCTV, kín­verska ríkis­sjón­varpið, að kín­verski herinn hefði hafið „mikil­væga hernaðar­æfingu og skipu­lagðar skotæfingar.“

Utan­ríkis­ráðu­neyti Taí­vans stað­festi í gær að flug­skeyti frá kín­verska hernum hefðu lent norð­austan og suð­vestan við Taí­van. Í til­kynningu frá ráðu­neytinu for­dæmdu þau að­gerðirnar og líktu Kína við Norður Kóreu, sem hefur stundað það að skjóta eld­flaugum inn fyrir land­helgi annarra landa.

Banda­ríkin halda á­fram að styðja banda­menn sína

Blin­ken sagði Banda­ríkin muni ekki bregðast við að­stæðunum sem komnar eru upp, í von um að ýta ekki frekar undir þær. Banda­ríkin muni þó halda á­fram að styðja banda­menn sína með hefð­bundnum flug- og sjó­flutningum um Taí­van-sund, sem liggur á milli Kína og Taí­van.

„Við munum fljúga, sigla og starfa þar sem al­þjóða­lög leyfa,“ sagði Ant­hony Blin­ken.

Sendi­herra Kína í Banda­ríkjunum var kallaður á teppið í Was­hington fyrr í dag. Hann var kallaður á fund í Hvíta húsinu.

Sendi­ráð Kína í Banda­ríkjunum sendi út yfir­lýsingu stuttu eftir fundinn. „Þrátt fyrir al­var­legar á­hyggjur og harð­orða and­stöðu krafðist Pelosi þess að heim­sækja Taí­van og skipta sér að innan­ríkis­málum Kína, grafa undan full­veldi og land­helgi Kína, traðka á stefnunni um eitt Kína og ógna friði og stöðug­leika Taí­van-sunds,“ sagði í yfir­lýsingunni.