Kristinn Hrafns­son, rit­stjóri Wiki­Leaks segir að að Tyrkir hafi fengið það sem þeir vildu þegar þeir sam­þykktu að falla frá neitunar­valdi sínu að aðild Sví­þjóðar og Finn­lands að NATO. Hann segir að Banda­ríkin og Tyrk­land ráði yfir banda­laginu.

Í gær var greint frá því að Tyrkir hafi fallið frá því að standa í vegi fyrir aðild Finn­lands og Sví­þjóðar að At­lants­hafs­banda­laginu. Full­trúar ríkja banda­lagsins hittust í Madríd í gær og í dag hefjast fundar­höld leið­toga NATO ríkjanna. Það þýðir að ekkert stendur lengur í vegi fyrir inn­göngu ríkjanna í banda­lagið.

Segir að Tyrkir hafi fengið það sem þeir vildu

„Sam­kvæmt fréttum hafa Tyrkir nú fallið frá neitunar­valdi sínu gegn aðild Svía og Finna að NATO og segjast hafa fengið sitt í gegn. Tyrkir vildu stöðva það sem þeir sáu sem lin­kind þessara ríkja gagn­vart stjórn­mála­flokki Kúrda, PKK og vopnðum sveitum Kúrda YPG,“ segir Kristinn í færslu á Face­book.

Hann segir að Tyrkir hafi ein­fald­lega fengið það sem þeir vildu.

„Tyrkir skil­greina PKK sem hryðju­verka­sam­tök og gerðu kröfu um að Svíar og Finnar tækju undir þá skil­greiningu – ella yrði aðild þeirra að NATO hindruð. Einnig vilja Tyrkir fram­sal Kúrda frá þessum löndum og að þau falli frá efna­hags­legum refsi­að­gerðum gegn Tyrkjum. Ekki er auð­fundið hvað Svíar og Finnar féllust á í þessum efnum en sam­kvæmt fréttum verður hryðju­verka­lög­gjöf breytt innan tíðar í Sví­þjóð.“

Mannréttindi, frelsi og lýðræði ekki tryggt í Tyrklandi

Kristinn segir þetta ekki í fyrsta sinn sem Tyrkir ráði stefnu NATO í mál­efnum Kúrda.

„Þannig lögðust þeir gegn því að Anders Fogh Rasmus­sen yrði fram­kvæmda­stjóri NATO árið 2009 nema Danir beittu sér gegn Kúrdum þar í landi. Sam­kvæmt upp­lýsingum sem fram komu í banda­rískum diplómataskjölum sem Wiki­Leaks birti 2010 féllust Danir á að loka sjón­varps­stöð Kúrda sem rekin var í landinu og endur­varpaði meðal annars til Tyrk­lands,“ segir Kristinn.

Hann segir að Tyrkir tryggi ekki gildi sem NATO heldur uppi um mann­réttindi, frelsi og lýð­ræði.

„Á há­tíðis­stundum er full­yrt í lof­ræðum að límið í NATO sé há­leit gildi um mann­réttindi, frelsi og lýð­ræði. Ekkert af þessu er tryggt í Tyrk­landi sem fær sínu fram­gengt innan NATO með neitunar­valdi. Nor­rænar þjóðir innan banda­lagsins verða að gefa eftir og lúffa. Kjöl­festu­ríki NATO í austri og vestri, Banda­ríkin og Tyrk­land, ráða þessu banda­lagi.“

Færsla Kristins á Facebook.
Fréttablaðið/Skjáskot