Donald Trump, forseti Bandaríkjanna,tilkynnti fyrir skemmstu að bandarísk stjórnvöld muni banna allt flug Boeing 737 MAX 8 og MAX 9 flugvéla í bandarískri lofthelgi um óákveðin tíma. Ástæðan er mannskætt flugslys sem átti sér stað í Eþíópíu um helgina þegar vél af sömu tegund fórst. 157 létust í slysinu, en um er að ræða annað flugslys 737 MAX 8 vélar á innan við hálfu ári. Í októberlok fórst vél flugfélagsins Lion Air yfir Indónesíu með þeim afleiðingum að 189 létust.

Bandarísk loftferðaryfirvöld(FAA) tilkynntu í fyrradag að vélarnar væru fullkomnlega flughæfar. Kröfðust þau þó að breytingar yrðu gerðar á vélunum fyrir apríl næstkomandi. 

Bandaríkin hafa nú fylgt í fótspor fjölda flugfélaga og flugmálayfirvalda um heim allan sem hafa kyrrsett, eða tekið úr rekstri vélar sömu tegundar. Icelandair tilkynnti í gær að ákveðið hefði verið að taka Boeing 737 MAX 8 flugvélar sínar úr rekstri um óákveðinn tíma. Félagið er með þrjár slíkar í rekstri.