Fanndís Birna Logadóttir
fanndis@frettabladid.is
Sunnudagur 17. janúar 2021
09.30 GMT

Donald Trump, 45. forseti Bandaríkjanna, kveður Hvíta húsið á miðvikudaginn þegar Joseph Robinette Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, tekur við embætti forseta. Óhætt er að segja að embættistíð Trumps hafi verið róstusöm, en á þeim fjórum árum sem hann hefur setið í embættinu hefur margt á daga hans drifið.

Samskipti Bandaríkjanna við bandamenn sína hafa versnað og þjóðin hefur einangrast á alþjóþavettvangi, mótmæli og óeirðir brutust út víða þar sem öfgahópar fengu byr undir báða vængi, klofningur innan Bandaríkjanna hefur aldrei verið meiri, og viðbrögðin við COVID-19 verða forsetanum til ævarandi skammar.

Í ljósi þess hversu viðburðaríkt kjörtímabil Trumps hefur verið er vert að taka saman það helsta sem átti sér stað á tímabilinu.

Óvæntur sigur Trumps

Fyrir rúmum fjórum árum þann 8. nóvember 2016, gengu Bandaríkjamenn til kosninga til að ákveða hver myndi taka við af Demókratanum Barack Obama sem forseti Bandaríkjanna. Bæði Repúblikanar og Demókratar tefldu fram nokkrum frambjóðendum og var baráttan hörð þeirra á milli.

Hillary Rodham Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra, hreppti tilnefningu Demókrata í júlí 2016 þar sem hún fór upp á móti sósíalistanum Bernie Sanders á landsfundi flokksins. Mjótt var á munum þeirra á milli en Clinton hlaut að lokum fleiri atkvæði en Sanders.

Hjá Repúblikönum var það fyrrum sjónvarpsstjarnan og viðskiptamaðurinn Donald John Trump sem hlaut tilnefningu flokksins þar sem hann fór upp á móti þekktum aðilum innan flokksins, þar á meðal Ted Cruz. Óhætt er að segja að valið hafi komið á óvart en Trump hafði aldrei gegnt opinberu embætti.

Donald Trump hreppti tilnefningu Repúblikana þar sem hann fór upp á móti Ted Cruz, á meðan Hillary Clinton hreppti tilnefningu Demókrata þar sem hún fór upp á móti Bernie Sanders.
Fréttablaðið/Getty

Fleiri atkvæði tryggðu ekki sigur

Baráttan um forsetaembættið átti eftir að vera hörð þar sem ásakanir gengu á víxl um ýmis málefni en Trump lofaði breytingum innan kerfisins og réðst ítrekað á Clinton. Kosið var í Bandaríkjunum þann 8. nóvember 2016 en þrátt fyrir að Clinton hafi fengið tæplega þremur milljónum fleiri atkvæði en Trump, tapaði Clinton kosningunum.

Bandaríkjamenn greiða ekki beint atkvæði til forseta heldur kjósa kjörmenn í sínu ríki en í smærri ríkjunum vega atkvæði íbúa hlutfallslega meira en í þeim stærri. Það var bæði það, og sú staðreynd að Clinton tapaði naumlega ríkjum á borð við Flórída, sem gerði það að verkum að Trump var kjörinn.

Trump tók síðan við embætti 45. forseta Bandaríkjanna þann 20. janúar 2017 og áttu næstu fjögur ár eftir að vera allt annað en hefðbundin þar sem Trump lofaði að „gera Bandaríkin frábær á ný.“

Múslimabannið

Viku eftir að Trump tók við embætti gaf hann út forsetatilskipun þess efnis að hlé yrði gert á umsóknum hælisleitenda til Bandaríkjanna, tímabundið bann var lagt við komu fólks frá sjö löndum þar sem múslimar eru í meirihluta, og varanlegt bann var sett á komu flóttamanna frá Sýrlandi.

Hinu svokallaða „múslimabanni“ var harðlega mótmælt víða en mannréttindasamtök héldu því fram að bannið bryti í bága við stjórnarskrá landsins og fór málið fljótlega fyrir dómstóla. Tilskipun forsetans var að lokum felld niður í byrjun febrúar en hann gaf þá út aðra tilskipun í mars með nokkrum breytingum, til að mynda var Írak ekki lengur á listanum.

Hið svokallaða „múslimabann“ var meðal fyrsta verkefna Trumps í embætti.
Fréttablaðið/Getty

Eftir að nokkrir dómstólar höfðu stöðvað aðra tilskipun Trumps gaf hann út enn aðra forsetatilskipunina í lok september, tveimur vikum áður en Hæstiréttur átti að taka bannið fyrir. Þar var bann lagt við ferðalögum frá löndunum sex, auk þess sem íbúum Norður-Kóreu og ákveðnum embættismönnum frá Venesúela var bannað að koma til landsins. Sú viðbót breytti þó litlu.

Enn og aftur stöðvuðu dómstólar tilskipunina en í desember féllst Hæstiréttur á bón ríkisstjórnar Trumps um að bannið myndi taka gildi á meðan málið tekið fyrir innan Hæstaréttar. Alríkisdómstóll átti síðan eftir að stöðva hluta af banninu, sem sneri að aðskilnaði hælisleitenda og fjölskyldna þeirra.

Bannið enn í gildi

Í apríl 2018 tók Hæstiréttur síðan fyrir ferðabannið og í júní féllust fimm af níu dómurum við réttinn að þriðja tilskipun Trumps bryti ekki í bága við stjórnarskránna þar sem alríkislöggjöf gæfi forsetanum víðtækt vald til að meina fólki inngöngu í Bandaríkin.

Fjölmargir mótmæltu banninu en meirihluti Hæstaréttar úrskurðaði að tilskipanir Trumps brytu ekki í bága við stjórnarskrá Bandaríkjanna.
Fréttablaðið/Getty

Ríkisstjórn Trumps tilkynnti að lokum í lok janúar 2020 að ferðabannið yrði víkkað og myndi þá ná sex landa til viðbótar í Asíu og Afríku. Alls náði bannið þannig til Íran, Líbíu, Sýrlands, Jemen, Sómalíu, Erítreu, Kirgistan, Mjanmar, Nígeríu, Norður-Kóreu, Súdan, Tansaníu og Venesúela, en misjafnt er eftir löndum hversu víðtækt bannið er. Örfáar undantekningar hafa verið gerðar á banninu.

Meirihluti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings kaus síðastliðinn júlí að samþykkja NO BAN löggjöfina sem hamlar vald forsetans til að koma í veg fyrir komu flóttamanna til landsins. Löggjöfin hefur þó ekki enn verið tekin fyrir innan öldungadeildarinnar, þar sem Repúblikanar hafa verið í meirihluta frá árinu 2015. Biden hefur þó tilkynnt að hann muni binda enda á bannið.

Rússarannsóknin

Annað mál sem einkenndi fyrri hluta kjörtímabils Trumps voru meint afskipti Rússa af forsetakosningunum árið 2016 en málið átti eftir að valda miklu fjaðrafoki næstu tvö árin. Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, hafði hafið rannsókn á málinu sumarið fyrir forsetakosningarnar og eftir að Trump tók við embætti fór málið á fullt.

Þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, Michael Flynn, sagði af sér í febrúar 2017 eftir aðeins 23 daga í embætti en Flynn játaði að hafa logið til um samræður sínar við sendiherra Rússlands skömmu áður en Trump tók við embætti auk þess sem að hann hafði tekið við greiðslum frá rússneskum og tyrkneskum hagsmunaaðilum.

Flynn var í kjölfarið ákærður en Trump hafði beðið þáverandi yfirmann FBI, James Comey, um að hætta við rannsóknina á hendur Flynn. Comey féllst ekki á það og tilkynnti í mars 2017 að rannsókn væri hafin á mögulegum tengslum framboðs Trumps við meint afskipti Rússa. Trump ákvað síðan í maí að reka Comey.

Trump bað yfirmann FBI að rannsaka ekki þjóðaröryggisráðgjafa sinn, Michael Flynn.
Fréttablaðið/Getty

Robert Mueller var í kjölfarið skipaður sem sérstakur saksóknari FBI til þess að sjá um rannsókn á meintum afskiptum Rússa og hvort Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar í tengslum við málið. Rannsóknin var viðamikil, á þriðja þúsund stefnur voru gefnar út og um 500 vitni voru yfirheyrðir.

Tengsl milli teymis Trumps og Rússa

Rannsókninni lauk í lok mars 2019 þegar William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, fékk hina svokölluðu Mueller-skýrslu afhenta en Barr sendi helstu niðurstöður skýrslunnar til þingmanna í kjölfarið. Skýrslan í heild sinni, sem var alls tæplega 450 blaðsíður, var síðan að lokum birt í apríl eftir áköll frá báðum flokkum.

Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að Rússar hafi haft afskipti af forsetakosningunum árið 2016 að tvennu leiti, annars vegar í gegnum samfélagsmiðlaherferð gegn Hillary Clinton og hins vegar þar sem rússnesk leyniþjónusta hafði brotist inn í tölvukerfi aðila á vegum herferðar Clintons.

Þá var það niðurstaða rannsóknarinnar að það hafi fundist tengsl milli kosningateymis Trumps og rússneskra stjórnvalda. Það hafi aftur á móti ekki verið sannað að þau hafi saman lagt á ráðin við að koma Trump til valda en það var skýrt tekið fram í skýrslunni að ekki væri hægt að hreinsa Trump af öllum ásökunum. Þannig væri hægt að skoða málið aftur ef til sakamálarannsóknar kæmi.

Mótmæli og óeirðir viðvarandi

Eftir múslimabannið var ljóst hvaða stefnu Trump myndi taka í innflytjendamálum og héldu margir því fram að forsetinn væri rasisti. Orðræða og aðgerðir Trumps áttu eftir að blása öfgamönnum byr í brjóst og kristallaðist það í ágúst 2017 þegar hvítir þjóðernissinnar söfnuðust saman fyrir „Unite the Right“ fjöldafund í Charlottesville í Virginíu-ríki.

Til átaka kom milli öfgahægrimanna og þeirra sem mótmæltu boðskap þeirra og urðu átökin fljótlega banvæn. Einn lést og á annan tug særðust til að mynda þegar einn úr hópi öfgamanna keyrði inn í hóp mótmælanda í borginni. Þáverandi dómsmálaráðherra, Jeff Sessions, átti síðar eftir að lýsa atvikinu og hegðun öfgamanna sem „innanlandsshryðjuverkum.“

Öfgahægrimenn stóðu fyrir fjöldafundi í ágúst undir yfirskriftinni „Unite the Right.“
Fréttablaðið/Getty

Trump var aftur á móti ekki jafn afdráttarlaus en síðar sama dag sagði hann að ofbeldið hafi komið „frá mörgum hliðum“ og minntist þar ekki sérstaklega á hvíta þjóðernissinna. Tveimur dögum síðar sagði Trump þó að rasismi væri „af hinu illa“ og bætti við að allir sem beita ofbeldi, þar á meðal KKK og nýnasistar, væru andstæðir því sem Bandaríkin standa fyrir.

Daginn þar á eftir virtist Trump þó aftur hverfa til fyrstu ummæla sinna þar sem hann sagði að ein hliðin hafi verið „slæm“ og að hin hafi einnig verið „mjög ofbeldisfull“ en hann sagði engan vera tilbúinn til að segja það. Hann var í kjölfarið mikið gagnrýndur fyrir ummælin en hvítir þjóðernissinnar hrósuðu sigri vegna málsins.

Önnur saga með BLM

Árið 2020 átti Trump síðan eftir að vera gagnrýndur enn frekar þegar hann virtist ekki vera tilbúinn til að fordæma öfgahópa þegar fjölmenn mótmæli brutust út víða um Bandaríkin undir merkjum Black Lives Matter. Kveikjan að mótmælunum var þegar svartur maður að nafni George Floyd lést við handtöku lögreglu en það var kornið sem fyllti mælinn í baráttu svartra gegn kerfisbundnu misrétti lögreglu.

Mótmæli BLM hópa urðu til þess að ýmsir aðrir öfgahópar risu upp og mótmæltu á móti. Þrátt fyrir að mótmæli BLM hafi að mestu farið friðsamlega fram brutust út óeirðir sums staðar, til að mynda í Portland. Trump var meðal þeirra fyrstu til að fordæma aðgerðir mótmælenda og kenndi Demókrötum meðal annars um.

Í fyrstu forsetakappræðunum milli Trumps og Joes Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, kom málið síðan til tals en þar kenndi Trump öfgahópnum Antifa um. Í kjölfarið var Trump spurður hvort hann væri tilbúin til að fordæma aðra öfgahópa opinberlega en hann virtist vera hikandi og bað um dæmi um mögulega hópa sem hann ætti að fordæma.

Eftir að öfgahópurinn Proud Boys kom til tals sagði Trump þeim að „halda sig til hlés og bíða,“ en meðlimir hópsins túlkuðu ummælin sem stuðningsyfirlýsingu. Nokkrum dögum síðar var hann aftur spurður út í málið og sagðist hann þar fordæma alla öfgahópa, en ítrekaði aftur að athyglin þyrfti að beinast að Antifa.

Einangrunarstefna Bandaríkjanna

Frá upphafi hefur Trump heitið því að gera „Bandaríkin frábær á ný“ og grundvallaðist sú fullyrðing í „America First“ stefnunni svokölluðu sem var ekki ný af nálinni þar sem aðrir forverar hans höfðu einnig farið eftir henni. Óhætt er þó að segja að Trump hafi gengið lengra en flestir aðrir og leið ekki á löngu þar til Bandaríkin voru farin að einangrast verulega.

Fjölmargir þjóðarleiðtogar urðu órólegir þegar Trump var kjörinn þar sem óljóst var hvað Trump myndi gera sem forseti, ekki síst þar sem hann hafði enga reynslu sem opinber embættismaður. Áhyggjurnar voru ekki óréttmætar en Trump tók fyrsta stóra skrefið innan við viku eftir að hann tók við embætti.

Þann 23. janúar 2017 tilskipaði hann úrsögn Bandaríkjanna úr TPP, viðskiptasamningi Kyrrahafsríkja, en hann hafði áður gagnrýnt samninginn, sem Barack Obama kom á. Þá hét hann því að hann myndi endurskoða aðra fríverslunarsamninga og stóð við það, þar á meðal má nefna Fríverslunarsamning Norður-Ameríku, NAFTA.

Bandaríkin fjarlægðust bandamönnum sínum á meðan Trump styrkti tengslin við andstæðinga, þar á meðal Rússland og Norður-Kóreu.
Fréttablaðið/Getty

Þar á eftir átti Trump eftir að koma víða við, til að mynda dró hann Bandaríkin út úr Parísarsáttmálanum og mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, setti hömlur á ríki sem Bandaríkin höfðu átt í viðræðum við, til að mynda Kúbu og Íran, en styrkti tengsl við andstæðinga Bandaríkjanna, til að mynda Rússland og Norður-Kóreu.

Spennan stigmagnast

Trump náði þó árangri í viðræðum í stríðsrekstur en Bandaríkin og Talibanar skrifuðu undir samkomulag í lok febrúar 2020 í von um að stoppa stríðið milli Bandaríkjanna og Afganistan sem hafði staðið yfir í hátt í tvo áratugi. Þá voru hermenn kallaðir aftur frá Sýrlandi og víðar en annars staðar héldu átökin áfram að stigmagnast.

Má þar helst nefna ákvörðun Trumps um að ráða íranska herforingjann Qasem Soleimani af dögum í Baghdad í Írak á fyrstu dögum ársins 2020. Mikil ólga var á svæðinu í kjölfarið og hétu Íranir hefndum vegna málsins. Samskipti milli ríkjanna eru enn mjög stirð, ekki síst eftir að utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, sagði Íran vera „nýja Afganistan,“ fyrr í vikunni.

Það sem mun þó líklega einna helst einkenna embættistíð Trumps á alþjóðavettvangi er viðskiptastríð Bandaríkjanna við Kína árið 2018 þar sem bandarísk og kínversk yfirvöld skiptust á að beita hvort annað refsiaðgerðum. Sátt náðist þeirra á milli í lok árs en nokkrum mánuðum síðar hitnaði aftur í kolunum og er samband þeirra enn verulega stirt, ekki síst vegna COVID-19.

Úkraínuhneykslið

Frá því að Trump tók við embætti hafa Demókratar verið mjög gagnrýnir í hans garð, ekki síst vegna afskipta Rússa af forsetakosningunum 2016, en margir hafa ítrekað haldið því fram að Trump sé óhæfur forseti. Árið 2019 fór aftur að hitna verulega í kolunum en í lok ágúst var greint frá símtali sem átti eftir að marka tímamót hjá Trump.

Umrætt símtal átti sér stað í júlí milli Trumps og Volódomír Zelenskíj, nýkjörnum forseta Úkraínu, en í símtalinu bað Trump Zelenskíj um greiða. Hann ýjaði að því að greiðinn fæli í sér rannsókn á Joe Biden, sem var þá mögulegur frambjóðandi Demókrata til forseta, og syni hans, Hunter Biden, en Hunter sat í stjórn orkufyrirtækisins Burisma í Úkraínu, sem hafði verið til rannsóknar vegna spillingar.

Daginn eftir símtalið hélt Trump aftur 391 milljón dala hernaðaraðstoð til Úkraínu, án þess að gefa neinar útskýringar en gera mátti ráð fyrir að aðstoðin hafi verið í skiptum fyrir umrædda rannsókn. Óþekktur uppljóstrari greindi frá umræddu samtali í bréfi til leyniþjónustunefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings og þegar fjölmiðlar greina loks frá málinu var hömlum á fjárhagsaðstoðinni aflétt.

Í lok september létu Demókratar síðan til skara skríða og tilkynnti Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, að rannsókn myndi fara stað í málinu en rannsóknin hófst formlega þann 31. október. Fjölmargir aðilar tengdir Trump báru í kjölfarið vitni og í skýrslu sem leyniþjónustunefnd deildarinnar birti 3. desember kom fram að Trump hafi „kastað rýrð á þjóðaöryggi“ Bandaríkjanna.

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, lét til skara skríða gegn Trump í september og í desember var kosið um ákærurnar innan deildarinnar.
Fréttablaðið/Getty

Trump ákærður

Í kjölfarið ákváðu Demókratar innan deildarinnar að setja saman ákærur til embættismissis og þann 10. desember voru ákærurnar kynntar, þar sem Trump var ákærður í tveimur liðum. Annars vegar fyrir misbeitingu valds, og hins vegar fyrir að hindra framgang réttvísinnar, og þann 18. desember var Trump síðan formlega ákærður til embættismissis (e. impeached).

Með því varð Trump aðeins þriðji forsetinn í tæplega 250 ára sögu Bandaríkjanna til að vera ákærður til embættismissis. Þaðan fór málið til öldungadeildarinnar þar sem hálfgerð réttarhöld fóru fram en þar sem Repúblikanar voru þar í meirihluta, og tveir þriðju þingmanna þyrfti að kjósa með ákærunum til að víkja forseta úr embætti, var nokkuð ljóst að Trump yrði sýknaður.

Þann 5. febrúar 2020 greiddu öldungadeildarþingmennirnir atkvæði um ákærurnar en flestir þingmenn kusu eftir flokkslínum. Einn þingmaður Repúblikana, Mitt Romney, kaus þó með ákærunni sem sneri að misbeitingu valds og var því niðurstaðan þar 52 atkvæði gegn 48, en við hina ákæruna 53 atkvæði gegn 47.

Valdaskipti í Hæstarétti

Á þeim fjórum árum sem Donald Trump hefur verið forseti Bandaríkjanna hefur hann skipað þrjá dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna, fleiri en nokkur annar Bandaríkjaforseti í sögunni, en níu dómarar eru við réttinn að hverju sinni og eru þeir æviráðnir. Fyrsti dómarinn sem Trump skipaði við réttinn var Neil Gorsuch og hefur hann setið við réttinn frá því í apríl 2017.

Gorsuch tók þar með við sæti Antonin Scalia heitins sem var skipaður við réttinn af Ronald Reagan á níunda áratugnum en Scalia lést í febrúar 2016. Demókratar höfðu ætlað að tilnefna dómara í hans stað árið 2016 en Repúblikanar innan þingsins stöðvuðu tilnefningu Barack Obama, þáverandi Bandaríkjaforseta, með þeim rökum að of stutt væri í forsetakosningar.

Kavanaugh í sæti Kennedy

Næsta tilnefning Trumps við réttinn var Brett Kavanaugh í júlí 2018 eftir að Anthony Kennedy, sem var einnig skipaður af Ronald Reagan á níunda áratugnum, tilkynnti að hann myndi láta af störfum. Tilnefning Kavanaugh vakti mikla athygli en hann var í kjölfarið sakaður um kynferðisofbeldi af sálfræðiprófessornum Christine Blasey Ford.

Ásakanirnar voru í kjölfarið teknar fyrir innan dómsmálanefndar öldungadeildarinnar, þar sem bæði Kavanaugh og Ford báru vitni, og ákvað meirihluti nefndarinnar í kjölfarið að vísa tilnefningunni til öldungadeildarinnar í heild sinni. Tilnefningin var að lokum samþykkt með 50 atkvæðum gegn 48 og hefur Kavanaugh setið við réttinn frá því í október 2018.

Barrett í sæti Ginsburg

Þriðja tilnefning Trumps kom síðan þegar Ruth Bader Ginsburg lést í september 2020 en Ginsburg var meðal frjálslyndustu dómaranna við réttinn. Mikil umræða myndaðist í kringum tilnefninguna þar sem verulega stutt var í kosningar í Bandaríkjunum en Demókratar vísuðu í rök Repúblikana þegar Antonin Scalia lést og vildu að næsti forseti fengi að tilnefna í sætið.

Einungis viku eftir að Ginsburg lést tilnefndi Trump hina íhaldssömu Amy Coney Barrett við réttinn og vildi öldungadeildin, þar sem Repúblikanar voru í meirihluta, flýta fyrir tilnefningunni þannig hún yrði samþykkt áður en kosningarnar færu fram. Demókratar mótmæltu því ákaft en Barrett var að lokum skipuð við réttinn í lok október.

Með skipunum Trumps er valdaskiptingin verulega ójöfn við réttinn þar sem sex dómarar tilheyra íhaldssamari arm réttarins, á móti aðeins þremur frá hinum frjálslyndari armi. Þá óttuðust margir að dómararnir yrðu hliðhollir Trump í framtíðinni þar sem hann var líklegur til að draga réttmæti komandi kosninga í efa.

Þrír af níu dómurum við Hæstarétt Bandaríkjanna voru skipaðir af Trump en dómarar eru skipaðir ævilangt.
Fréttablaðið/Getty

Hafnar tillögum sérfræðinga í faraldri

Kosningaárið 2020 átti eftir að reynast erfitt fyrir Trump, ekki síst vegna heimsfaraldurs COVID-19. Hann sætti stöðugri og harðri gagnrýni fyrir viðbrögð sín við veirunni, en Bandaríkin hafa komið sérstaklega illa út úr faraldrinum.

Fyrsta tilfellið greindist í Bandaríkjunum í janúar í fyrra, en næstu mánuði átti Trump eftir að draga álit sérfræðinga í efa og gera lítið úr veirunni. Trump kallaði meira að segja Anthony Fauci, yfirmann heilbrigðisstofnunar Bandaríkjanna, og aðra smitsjúkdómafræðinga „bjána.“

Trump vakti sérstaka athygli fyrir framúrstefnulegar hugmyndir um læknisfræðileg ráð við COVID19 og sérfræðingar um allan heim máttu hafa sig alla við að leiðrétta órökstuddar vangaveltur leiðtoga hins frjálsa heims. Hann talaði ítrekað gegn grímunotkun og var ekki tilbúinn til þess að taka undir kröfur um hertar sóttvarnaráðstafanir.

Komið hefur í ljós að lyfið hýdroxíklórókín, sem forsetinn hampaði mjög sem vænlegu lyfi við sjúkdómnum, gerir lítið gagn gegn kórónaveirunni og getur raunar verið skaðlegt. Þá lagði hann til á blaðamannafundi í Hvíta húsinu að rannsakað yrði hvort hægt væri að sigrast á kórónaveirunni með því að dæla sótthreinsivökva í líkamann og að prófað yrði að lýsa með útfjólubláu eða mjög sterku ljósi á líkama hinna veiku.

Enn langt í land

Faraldurinn sýndi bresti innan heilbrigðiskerfisins, efnahagur landsins, sem Trump hafði áður haldið nokkuð stöðugum, hrundi, og milljónir manna misstu vinnuna sína. Engu að síður virtist Trump vera tregur til að grípa til aðgerða, þrátt fyrir að hann hafi sjálfur greinst með veiruna og veikst í október, og reyndist það dýrkeypt.

Allir helstu sérfræðingar hafa varað við stöðunni í Bandaríkjunum og yfirvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að styðja ekki við Bandaríkjamenn. Repúblikanar og Demókratar innan þingsins hafa tekist á um efnahagsaðgerðir vegna áhrifa COVID-19 en nýjasti pakkinn sem þingið samþykkti, eftir margra mánaða umræðu, er ekki talinn nógu stór.

Tæplega 24 milljónir manna hafa nú greinst með veiruna og hátt í 400 þúsund látist eftir að hafa smitast en hvergi í heiminum má finna jafn mörg tilfelli. Atvinnuleysi er enn mikið, fjölmörg fyrirtæki eru í miklum erfiðleikum, og eiga fjölmargir Bandaríkjamenn enn um sárt að binda.

Bólusetningar eru nú hafnar í Bandaríkjunum, þar sem bóluefni Pfizer og BioNTech var það fyrsta til að vera samþykkt í desember, en engu að síður er enn langt í land. Faraldurinn er enn í uppsveiflu og eru yfirvöld uggandi vegna nýs afbrigðis veirunnar.

Bandaríkin eru með lang flest staðfest tilfelli COVID-19 á heimsvísu.
Skjáskot/John Hopkins háskólinn

Umdeildar kosningar

Bandaríkjamenn gengu til kosninga í byrjun nóvember 2020. Kannanir í aðdraganda kosninganna sýndu töluvert fylgishrun forsetans, sem var þó fullviss um að ná endurkjöri. Trump og Biden tókust reglulega á um hin ýmsu málefni, ekki síst heimsfaraldur COVID-19, stanslaus mótmæli, og stöðu Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi.

Fyrstu kappræðurnar þeirra á milli, sem fóru fram í september, voru sérstaklega minnistæðar. Biden hafði að mestu haldið sig til hlés vegna faraldursins og því fékk Trump ekki tækifæri til þess að gagnrýna Biden, líkt og hann hefur áður gert við mótherja sína. Stjórnleysi einkenndi kappræðurnar þar sem Trump talaði ítrekað yfir Biden sem bað á endanum Trump um að þegja.

Seinni kappræðunum var síðan aflýst eftir að Trump fékk COVID-19 og því voru aðeins einar aðrar kappræður sem fóru fram. Þá var gripið til þess ráðs að slökkva á hljóðnemum þess sem væri ekki að tala. Ólíkt fyrri kappræðunum voru þessar örlítið málefnalegri en þó var einstaklega lítið um svör frá báðum aðilum.

Öðruvísi kosningar

Þann 3. nóvember 2020 rann síðan kjördagur upp í Bandaríkjunum en vegna faraldursins var kosið utan kjörfundar og með póstatkvæðum í mun meiri mæli en áður. Rúmlega 100 milljón manns greiddu atkvæði fyrir sjálfan kjördag og var ljóst að kjörsóknin yrði töluvert meiri en áður.

Trump sá sér leik á borði vegna fyrirkomulags kosninganna, fann póstatkvæðagreiðslum allt til foráttu og fór að halda því fram að víðtækt kosningasvindl myndi eiga sér stað. Í ljósi þessa neitaði hann ítrekað að svara því hvort hann myndi virða úrslit kosninganna en enginn Bandaríkjaforseti hafði neitað því áður.

Joe Biden vann að lokum kosningarnar en Trump stóð þó á sínu, hélt því ítrekað fram að kosningasvindl hefði átt sér stað, og reyndi að fá niðurstöðunum hrundið. Þrátt fyrir mikla baráttu báru tilraunir hans ekki árangur og átti hann þá fáa valmöguleika eftir.

@realDonaldTrump

Hegðun forsetans á samfélagsmiðlum verður mörgum minnisstæð. Trump notaði Twitter ekki aðeins til að ausa úr skálum reiði sinnar yfir efnistökum blaðamanna og málflutningi andstæðinga sinna í pólitík.

Hann tilkynnti þar líka um mannabreytingar í starfsliði sínu, rak menn og réði aðra í Twitterfærslum, ræddi viðkvæm milliríkjamál, jafnvel þjóðaröryggismál, og gekk svo langt að hóta kjarnorkustríði á Twitter.

Vegna þess hve ónákvæmar, villandi og oft rangar upplýsingar hann veitti á samfélagsmiðlum, sáu þeir sér ekki annað fært en vara við færslum hans. Svo fór að lokum að aðgangi forsetans var lokað varanlega á flestum samfélagsmiðlum í upphafi árs 2021.

Twitter lokaði fyrir aðgang forsetans í byrjun janúar og bættust aðrir samfélagsmiðlar við í kjölfarið.
Fréttablaðið/Getty

Tilraun til uppreisnar

Úrslitatilraunina til að fá niðurstöðunum hrunduð gerði Trump þegar þingið kom saman til að staðfesta kjör Bidens, en til hennar þurfti hann stuðning bæði varaforseta síns og þingmanna.

Þann 6. janúar 2021 komu báðar deildir Bandaríkjaþings saman til að staðfesta úrslit kosninganna. Trump neitaði enn að játa sig sigraðan og hafði fengið nokkra þingmenn með sér í lið. Sama dag söfnuðust þúsundir stuðningsmanna Trumps saman í Washington, D.C., til mótmæla. Sjálfur ávarpaði Trump stuðningsmenn sína og hvatti þá til dáða.

Neitaði að fordæma stuðningsmenn sína

Ástandið stigmagnaðist verulega í kjölfar ávarpsins, óeirðir brutust út og stuðningsmenn Trumps brutu sér leið inn í þinghúsið. Rýma þurfti þingsalina og sögðust margir þingmenn hafa óttast um líf sitt. Útgöngubann var sett á, lögreglumenn frá öðrum ríkjum voru kallaðir til, og að lokum tókst að koma þinginu saman aftur en fimm manns létust í óeirðunum, þar á meðal einn lögreglumaður.

Meðan á óeirðunum stóð neitaði Trump að fordæma aðgerðir stuðningsmanna sinna og sagðist skilja reiði þeirra. Hegðun hans umræddan dag leiddi til þess að fleiri úr röðum Repúblikana snéru við honum baki og fordæmdu framkomu hans. Helstu samfélagsmiðlar lokuðu aðgangi hans, sem var forsetanum ekki síður þungbært, enda Twitter hans helsti vettvangur til tjáskipta við stuðningsmenn og reyndar heimsbyggðina alla.

Þingmennirnir komu loks saman síðar um daginn og staðfestu sigur Bidens en margir óttuðust frekari óeirðir. Hávær krafa var á lofti um að Trump yrði vikið úr embætti en Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, féllst ekki á það.

Ákærður í annað sinn

Í kjölfar óeirðanna lögðu Demókratar í fulltrúadeildinni fram ákærur til embættismissis á hendur Trump og þann 13. janúar var Trump formlega ákærður fyrir að hvetja til uppreisnar. Þar með varð hann fyrsti Bandaríkjaforseti sögunnar til að vera ákærður tvisvar. Málið fer nú fyrir öldungadeild Bandaríkjaþings og verður leitt til lykta eftir að Biden hefur tekið við embætti.

Ákveðið tveir þriðju þingmanna innan deildarinnar að samþykkja ákærurnar mun Trump verða fyrsti forseti sögunnar til að vera vikið úr embætti eftir að hafa verið ákærður. Þá mun hann ekki geta boðið sig fram í framtíðinni en margir óttast klofninginn sem Trump skapaði innan Repúblikanaflokksins.

Klofin þjóð í vanda

Trump skilur eftir sig djúpan vanda og klofna þjóð, sem nýr forseti mun þurfa að takast á við á næstu árum. Þá eru enn eftir nokkrir dagar af embættistíð Trumps og enn getur átt eftir að draga til frekari tíðinda.

Ýmislegt getur gerst á næstu dögum en eitt er víst: Donald Trump mun hætta sem forseti Bandaríkjanna á miðvikudaginn.

Áhugavert verður að sjá hvað gerist á næstu dögum.
Fréttablaðið/Getty
Athugasemdir