Bandarísk yfirvöld hafa keypt upp alla skammta af Remdesivir, nýju lyfi gegn COVID-19, næstu þrjá mánuðina. Dr. Andrew Hill, rannsóknarfræðimaður hjá háskólanum í Liverpool, segir ekkert eftir fyrir aðrar þjóðir. Greint er frá þessu á vef Guardian.

Tilraunir með lyfið hafa gengið vel í Bandaríkjunum og hafa einstaklingar náð skjótari bata með notkun lyfsins. Í maí gaf bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið (FDA) út neyðarleyfi fyrir notkun þess til meðferðar á COVID-19.

Alex Azar, heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, sagði þetta frábærar fréttir, að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi náð að gera svona gott samkomulag fyrir lyfjafyrirtækið Gilead.

Remdesi­v­ir hefur verið notað sem meðferð gegn Ebólu og benda niðurstöður til þess að það geti stytt bataferli sjúklinga sem sýkst hafa af kórónaveirunni um allt að fjóra daga. Lyfið var flutt hingað til lands í maí og hefur sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu um lyf fyrir menn mælt með að lyfið Veklury (remdesivir) hljóti skilyrt markaðsleyfi.

Heilbrigðissérfræðingar hafa miklar áhyggjur af athæfi Bandaríkjamanna þar sem enn er langt í bóluefni gegn kórónaveirunni. Sex mánuðir eru liðnir frá því að fyrstu tilfellin af COVID-19 komu upp í Wuhan í Kína. Tedros Adhanom, forstjóri Alþjóðheilbrigðismálastofnunar (WHO), segir hið versta í kórónaveirufaraldrinum enn ekki yfirstaðið.

Bandaríska lyfjafyrirtækið Gilead framleiðir lyfið.
Fréttablaðið/Getty