Vla­dimir Putin hringdi í Donald Trump seinasta sunnu­dag og þakkaði honum fyrir upp­lýsingar banda­rísku leyni­þjónustunnar sem eiga að hafa komið í veg fyrir hryðju­verka­á­rás í Sankti Péturs­borg á gaml­árs­kvöld. Þetta hefur bandaríski fréttamiðillin Vice eftir yfir­lýsingum stjórn­valda í Kreml og Hvíta hússins. Þetta er í annað sinn á þremur árum sem Putin þakkar bandarískum yfirvöldum sem eiga að hafa komið í veg fyrir hryðjuverkaárásir. Trump hefur margoft verið gagnrýndur fyrir samband sitt við Vladimir Putin.

Í stuttri frétt stjórn­valda í Kreml um símtalið segir að „Vla­dimir Putin hafi þakkað Donald Trump fyrir upp­lýsingar sem bárust frá banda­rísku leyni­þjónustunni, sem hafi hjálpað til við að koma í veg fyrir hryðju­verka­á­rás í Rúss­landi.“


Upp­lýsingarnar sýna já­kvæð á­hrif sam­starfs

Ekki kemur fram hvers eðlis á­rásirnar hafi átt að vera, en Vice hefur eftir rúss­nesku frétta­stofunni TASS að tveir rúss­neskir ríkis­borgarar hafi verið hand­teknir á föstu­daginn á grund­velli upp­lýsinganna.

Í sím­tali for­setanna, sem er fyrsta sam­tal þeirra síðan í júlí, á­kváðu þeir „að halda á­fram sam­starfi í bar­áttunni gegn hryðju­verkum,“ auk þess að ræða mál sem varða sam­eigin­lega hags­muni landanna.

Putin hringdi einnig í banda­ríska for­setann í desember 2017, og þakkaði honum þá fyrir upp­lýsingar banda­rísku leyni­þjónustunnar sem komu í veg fyrir árás Íslamska ríkisins í Sankti Péturs­borg. Sú árás átti að eiga sér stað í Kazsan kirkjunni í borginni, auk nokkurra annarra skot­marka. Þá voru nokkrir með­limir hryðju­verka­hóps hand­teknir með tölu­vert magn sprengi­efnis, vopna og „öfga­sinnaðs á­róðurs.“

Í til­kynningu rúss­neskra stjórn­valda eftir það sím­tal sagði að „leið­togarnir hafi verið sam­mála um að upp­lýsingarnar sýni þau já­kvæðu á­hrif sem sam­starf þjóðanna geti haft.“

Trump hafi lekið leyni­legum upp­lýsingum

Hér er því ekki um stefnu­breytingu að ræða, en Trump hefur marg­oft verið gagn­rýndur fyrir sam­band sitt við Vla­dimir Putin. Hann hefur til að mynda stað­fast­lega neitað því að rúss­nesk stjórn­völd hafi haft af­skipti af for­seta­kosningunum í Banda­ríkjunum 2016, jafn­vel þó að rann­sókn banda­rísku leyni­þjónustunnar hafi leitt það í ljós.

Banda­ríska frétta­stofan CNN greindi einnig árið2017 frá á­sökunum á hendur Trump um að hann hafi á fundi í Hvíta húsinu lekið leyni­legum upp­lýsingum til rúss­neska utan­ríkis­ríkis­ráð­herrans og sendi­herra Rúss­lands í Banda­ríkjunum.

Banda­rísk stórn­völd hafa á­vallt neitað ásökununum, en óttast var að upp­lýsingarnar sem for­setinn á að hafa látið rúss­nesku em­bættis­mennina hafa, gætu komið upp heimilda­menn banda­rísku leyni­þjónustunnar, og þannig stofnað þeim í hættu.