Bandarísk yfirvöld hyggjast kaupa 500 milljónir skammta af bóluefni Pfizer/Biontech gegn COVID-19 og gefa 92 lágtekjulöndum og Afríkusambandinu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti þetta í dag og má lesa viljayfirlýsinguna á vef Hvíta hússins. Þetta er án efa eitt stærsta átak einnar þjóðar í baráttunni gegn COVID-19, en Biden hvetur aðrar þjóðir sem fylgja eftir fordæmi Bandaríkjanna, en aðrar þjóðir hafa tekið þátt í svipuðu átaki sem hófst í febrúar.

Leiðtogafundur G-7 ríkjanna, helstu iðnríkja heims, hefst á morgun í Cornwall, Bretlandi, og stendur yfir til 13. júní.

Þýska líftæknifyrirtækið BioNTech og bandaríski lyfjarisinn Pfizer geta útvegað 200 milljónir skammta á þessu ári og 300 milljónir skammta á næsta ár i að því er fram kemur á vef Reuters.

Ísland þegar hluti af slíku átaki

Íslendingar eru meðal 80 þjóða sem taka þátt í svokölluðu COVAX verkefni, sam­starfs­verk­efni Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunarinnar (WHO), CEPI og Gavi, sem í grunninn snýst um að tryggja bólu­efni fyrir alla.

Bólu­setninga­banda­lagið Gavi, sam­starfs­aðili CEPI og WHO í CO­VAX-verk­efninu, sam­þykkti í ágúst í fyrra að veita 92 lág­tekju­löndum að­stoð og tryggja þeim að­gang að bólu­efni. Ísland lofaði að leggja fram hálfan milljarð króna í fjárframlagi til COVAX-verkefnisins.

Fyrstu skammtarnir voru sendir til Ghana í febrúar.

Tóku ekki þátt í svipuðu alþjóðaverkefni

Því er átak Bidens ekkert nýtt af nálinni, en leiðtogarnir á bak við COVAX verkefni hafa gagnrýnt þjóðir eins og Bretland og Bandaríkin fyrir að kaupa upp allt bóluefni áður en hægt var að tryggja aðgang allra þjóða að skömmtum.

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, sleit öll tengsl Bandaríkjanna við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og dró til baka öll fjárframlög til stofnunarinnar, sem hafði að sjálfsögðu mikil áhrif á stofnunina í miðjum heimsfaraldri. Biden sneri þó þeirri ákvörðun við eftir að hann tók við embættinu.

Nú þegar yfirvöld í Bandaríkjunum sjá fyrir að klára að bólusetja stóran hluta þjóðar sinnar fyrir lok sumars, hafa þau ákveðið að taka þátt í átaki til að hjálpa öðrum ríkjum.

CEPI (Coalition for Epidemic Preparedness Innovations) var stofnað árið 2017 af ríkisstjórnum Noregs og Indlands, góðgerðarfélagi Bill og Melindu Gates, góðgerðarsjóðnum The Wellcome Trust og Alþjóðaefnahagsráðinu (e. World Economic Forum)
Fréttablaðið/Getty images

Hér fyrir neðan má sjá við­tal Frétta­blaðsins við Frederik Kristen­sen, aðstoðarforstjóra CEPI , frá því í ágúst í fyrra.