Mat­væla og lyfja­eftir­lit Banda­ríkjanna, FDA, hefur nú birt niður­stöður úr rann­sókn á virkni bólu­efni Jans­sen en að mati eftir­litsins veitir einn skammtur af bólu­efninu vernd veirunni og kemur í veg fyrir spítala­inn­lagnir og dauðs­föll af völdum CO­VID-19 í öllum til­fellum.

Líkt og áður hefur komið fram hafa klínískar rann­sóknir sýnt fram á að bólu­efnið, sem þróað var af John­son & John­son, sé með 66 prósent virkni en ó­líkt öðrum bólu­efnum á markaðinum þarf að­eins einn skammt af bólu­efni Jans­sen. Þá kemur bólu­efnið í veg fyrir al­var­leg veikindi í 85 prósent til­fella.

Koma saman á föstudag til að meta gögnin

Þannig má gera ráð fyrir því að Banda­ríkja­menn muni veita bólu­efninu neyðar­heimild á næstu dögum. Sér­fræðingar í Banda­ríkjunum munu koma saman næst­komandi föstu­dag til þess að meta gögnin og á­kveða hvort veita eigi bólu­efninu heimild.

Bólu­setningar eru þegar hafnar með tveimur öðrum bólu­efnum þar í landi, bólu­efni Pfizer og BioN­Tech og bólu­efni Moderna

Að því er kemur fram á vef Sótt­varna­stofnunar Banda­ríkjanna, CDC, er nú búið að gefa rúm­lega 65 milljón skammta af bólu­efnum Pfizer og Moderna í Banda­ríkjunum og hefur 17 milljón skömmtum til við­bótar verið dreift til ríkjanna.

Banda­ríkin hafa komið einna verst út úr far­aldrinum en tæp­lega 28,3 milljón manns hafa nú greinst með veiruna þar í landi og rúm­lega hálf milljón látist eftir að hafa smitast. Joe Biden Banda­ríkja­for­seti stóð fyrir minningar­stund fyrr í vikunni þegar dauðs­föllin fóru yfir 500 þúsund.