Æðsti hers­höfðingi Banda­ríkjanna, Mark Mill­ey, segir árás Kín­verja á Taí­van ekki vera yfir­vofandi en að Banda­ríkja­menn fylgist grannt með þróun mála á svæðinu. Þessu greinir BBC frá.

„Kín­verjar eru að vinna að því að geta ráðist inn á ein­hverjum tíma­punkti, en sú á­kvörðun væri pólitískt val,“ sagði Mill­ey í sam­tali við BBC. Kína telur Taí­van vera brota­hérað sem verði að sam­einast megin­landinu á ný, og með valdi ef þörf krefur. Taí­land lítur á sig sem sjálf­stætt ríki.

Yfir­völd í Kína hafa gagn­rýnt Banda­rísk yfir­völd fyrir stuðning sinn við sjálf­stæði Taí­van. Þau hafa sagst ætla að „berja niður“ allar þær til­raunir til stuðnings sjálf­stæðis Taí­vans.

Síðustu mánuði hefur spennan á milli Kína og Taí­van farið vaxandi. Kín­verjar hafa sent her­þotur í könnunar­leið­angur yfir eyjuna og því brotið loft­helgi Taí­van. Taí­van hefur svarað því með því að senda her­þotur á móti. Banda­ríkin hafa sent flota­skip til Taí­van þar sem þau hafa siglt í kringum eyjuna.

Joe Biden Banda­ríkja­for­seti sagði Kín­verja vera að „daðra við hættuna“ í maí. Hann hét því að vernda eyjuna ef ráðist yrði á hana. Yfir­völd í Kína svöruðu því og sögðust ekki hika við að berjast við Banda­ríkin til að koma í veg fyrir að Taí­van lýsi form­lega yfir sjálf­stæði.

Árás Kínverja inn í Taívan gæti orðið dýrkeypt. Greinandi á vegum BBC segir hana gæta verið uppsprettu að stríði á milli stórvelda. En flestir sérfræðingar segja árás Kína á Taívan sé ólíkleg í bili.