Banda­ríski herinn felldi í nótt Qa­sem So­leimani, hátt settan hers­höfðingja Quds sér­sveitar íranska hersins, að því frá er greint á vef CNN.So­leimini var staddur í Bag­hdad í Írak og myrtur að fyrir­skipan Donald Trump, Banda­ríkja­for­seta. Íranir hafa nú þegar heitið hefndum.

Á vef CNN kemur fram að So­leimani hafi verið staddur á al­þjóða­flug­vellinum í Bag­hdad. Banda­ríkja­menn hafi þá skotið flug­skeytum þangað sem hann var staddur og sam­kvæmt upp­lýsingum banda­ríska miðilsins veitti Banda­ríkja­for­seti leyfi fyrir á­rásinni. Hún hafi komið í kjöl­far þess að Íranir hafi ekki breytt hegðun sinni á al­þjóða­vett­vangi að undan­förnu.

Tekið er fram í um­fjöllun banda­ríska miðilsins að morðið á So­leimani geti haft geig­væn­legar af­leiðingar í för með sér en spenna á milli ríkjanna tveggja hefur orðið æ meiri allt frá því að Donald Trump á­kvað að segja Banda­ríkin úr kjarn­orku­sam­komu­lagi Vestur­velda við Íran í maí árið 2018.

Írönsk stjórn­völd hafa þegar brugðist ó­kvæða við. Utan­ríkis­ráð­herra landsins Javad Zarif segir á­rásina hafa verið „heimsku­lega“ og „til­vik al­þjóð­legs hryðju­verks.“ Hann segir hana muna styrkja í sessi and­stæðinga Banda­ríkjanna í Mið­austur­löndum. Æðsti leið­togi Íran, Aya­tollah Ali Khameini hefur þegar heitið hefndum. Þá hefur han lýst yfir þriggja daga þjóðar­sorg.

Donald Trump birti í morgun mynd af fána Banda­ríkjanna á sam­fé­lags­miðlinum Twitter í kjöl­far á­rásarinnar. Að öðru leyti hefur hann ekki tjáð sig um hana enn sem komið er. Mike Pompeo, utan­ríkis­ráð­herra, birti mynd­band á sinni Twitter síðu sem hann segir vera af Írökum að fagna dauða So­leimani. Demó­kratar í stjórnar­and­stöðu hafa hins vegar gagn­rýnt á­rásina og sagt að hún geti leitt til stríðs­á­taka á milli ríkjanna. Þar á meðal er Nancy Pelosi, leiðtogi Demókrata sem fara með meirihluta í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.

Á vef CNN er tekið fram að morð Banda­ríkja­manna á So­leimani hafi ekki gerst í tóma­rúmi. Undan­farin ár hafa ríkin tvö átt í stað­göngu­stríði víðs vegar um mið­austur­lönd, meðal annars í Írak og í Sýr­landi. Í síðustu viku lést Banda­ríkja­maður í eld­flauga­á­rás í Írak. Tveimur dögum síðar réðust Banda­ríkja­menn að víga­hópum sem studdir eru af Írönum. Á þriðju­daginn réðust svo mót­mælendur, sem sagðir eru studdir af Írönum, inn í sendi­ráð Banda­ríkjanna í Bag­hdad.

Íröksk yfirvöld hafa birt myndir frá flugvellinum í kjölfar árásarinnar.
Fréttablaðið/AFP