Um­deilt ferða­bann banda­rískra stjórn­valda vegna Co­vid-far­aldursins hefur verið í gildi síðan í mars 2020 en heyrir brátt sögunni til. Far­þegar frá Evrópu­sam­bands­ríkjum, Schengen, Bret­landi og Írlandi sem eru fullbólusettir og geta fært sönnur á það munu geta ferðast til Banda­ríkjanna frá nóvember samkvæmt heimildarmönnum Financial Times og Politico innan ESB.

Þetta er talinn mikill sigur fyrir em­bættis­menn í Brussel og London sem lengi hafa reynt að sann­færa stjórn Joe Bidens for­seta um að af­létta banni á ferðalög frá Evrópuríkjum og Bret­landi. Gert er ráð fyrir að Bandaríkjastjórn kynni breytingarnar síðar í dag.

Sam­kvæmt gildandi reglum mega einungis banda­rískir ríkis­borgarar og náin ætt­menni, græna­korts­hafar og þau sem fá sér­staka undan­þágu vega þjóðar­hags­muna koma til landsins ef þau hafa verið í Evrópu eða Bret­landi undanfarna 14 daga.

Einn heimildar­­maður Financial Times segir breytingarnar hluta af stærri endur­­­skoðun á reglum um al­­þjóð­­leg ferða­lög til Banda­ríkjanna, þar sem stefnt er að því að straum­línu­laga nú­verandi kerfi sem þykir flókið og þungt í vöfum.

Uppfært klukkan 14:32

Jeff Zients, samhæfingarstjóri Hvíta hússins í faraldursmálum, segir í samtali við New York Times að fullbólusettir farþegar hvaðaæva að úr heiminum munu komast inn í Bandaríkin snemma í nóvember.

„Alþjóðleg ferðalög gegna lykilhlutverki í að tengja saman fjölskyldur og ástvini, að styðja við rekstur lítilla og stórra fyrirtækja, til að ýta undir frjálst flæði hugmynda og menningar,“ segir hann. „Af þessum sökum, með vísindin og lýðheilsu að leiðarljósi, höfum við þróað nýtt kerfi um alþjóðleg ferðalög með flugi sem eykur öryggi Bandaríkjamanna heima fyrir og alþjóðlegra flugferðalaga.“