Göngumaðurinn sem féll fram af klettum við Kirkjufell í morgun er látinn. Lögreglan á Vesturlandi greinir frá þessu, en mikill viðbúnaður varð í morgun vegna slyssins. Maðurinn hafði orðið viðskila við félaga sinn, féll fram af klettum og lést. 

Björgunarsveitarmenn eru að aðstoða við flutning hins látna af fjallinu og lögregan á Vesturlandi rannsakar tildrög slyssins. 

Fréttablaðið greindi frá því fyrr í dag að mikill viðbúnaður væri við Kirkjufell vegna slasaðs göngumanns. Fimm sérhæfðir fjallabjörgunarmenn frá höfuðborgarsvæðinu voru meðal annars sendir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á slysstað. 

Þá fengust upplýsingar frá lögreglunni á Vesturlandi að gönguhópur hefði gengið fram að manninum.