Baltasar Kormákur, kvikmyndaleikstjórinn ástsæli, var í dag heiðraður fyrir störf sín á erlendri grund af forseta Íslands samhliða árlegri veitingu Útflutningsverðlauna forsetans við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.

Baltasar hlaut þar heiðursviðurkenningu sem veitt er fyrir eftirtektarverð störf erlendis. Ýmsir þekktir Íslendingar á borð við Vigdísi Finnbogadóttur, Helga Tómasson listdansstjóra og Björk hafa áður hlotið viðurkenninguna. Í tilkynningu um viðurkenninguna er stiklað á stóru yfir feril Baltasars og orði meðal annars vikið að sjónvarpsþáttaröðinni Kötlu sem hann framleiddi í samstarfi við Netflix í fyrra.

Sjálf útflutningsverðlaunin runnu í skaut fyrirtækisins Controlant, sem hefur framleitt hug- og vélbúnað til að tryggja gæði viðkvæmra vara í flutningi og draga úr sóun á lyfjum og matvælum. Neft er í tilkynningunni að starfsemi fyrirtækisins nái til tæplega 200 landa og að meðal annars hafi fyrirtækið starfað fyrir fjölda aðila úr lyfjaiðnaðinum í tengslum við flutninga á bóluefnum gegn Covid-19.