Garðabær hefur samþykkt nýtt deiliskipulag í Rjúpnadal, norðan við Vífilstaðavatn en þar gert er ráð fyrir kirkjugarði auk meðferðarheimilis á vegum barnaverndarstofu.

Viðræður hafa átt sér stað um Minningagarð og bálstofu sem höfðu áhrif á mótun deiliskipulagsins. Beðið er staðfestingar Skipulagsstofnunar.

Óhefðbundinn kirkjugarður

Bæjarstjórn samþykkti síðastliðið haust nýtt deiliskipulag fyrir svæðið og breytingu á aðalskipulagi 2016-2030. Auk um fjögurra hektara hefðbundins kirkjugarðs á bærinn í viðræðum við Sigríði Bylgju Sigurjónsdóttur, mannvistfræðing sem stýrir verkefninu Tré lífsins, um að reisa bálstofu á sama svæði og eins hektara Minningargarð sem tengist verkefninu. Beðið er samþykktar Sýslumanns vegna þess. Tré lífsins hyggst bjóða nýja valkosti við lífslok. Fólk getur við lát sitt fengið tré jarðsett ásamt jarðneskjum leifum sínum í duftkeri.

Aðalskipulag Garðabæjar.

Hvert tré merkt hinum látna

Við hvert tré í Minningagarðinum verður merkisskjöldur með nafni hins látna, dánardegi og fæðingarstað. Þá verður rafrænn kóði þar sem hægt verður að fara inn á sérstaka minningarsíðu um viðkomandi. „Tré lífsins er samfélagslegt verkefni sem hugar að sjálfbærni og umhverfismálum út í ystu æsar,“ segir Sigríður Bylgja og að útfarir verði óháðar trúar- og lífsskoðunarfélögum. „Þetta er hugmynd sem ég fékk 2014 og gerir brottför okkar úr þessu lífi umhverfisvænni,“ segir hún og að gott samstarf hafi verið við bæjaryfirvöld. „Skipulagsyfirvöld í Garðabæ hafa verið mjög framsýn í þessu verkefni,“ sagði Sigríður Bylgja i viðtali í þættinum 21 á Hringbraut fyrr í vikunni. Öll sveitarfélög á landinu hafa fengið erindi frá Tré lífsins og hafa undirtektir verið góðar að sögn Sigríðar.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar segir viðræður hafa hingað til verið óformlegar en stefnt sé á formlega umræðu um starfsemina og sjá verði hvernig fjármögnun tekst til hjá Tré lífsins.

Nýr brennsluofn

Fyrir bálstofuna verður nýr brennsluofn fluttur til landsins frá Þýskalandi, knúinn Metani. Aðeins einn brennsluofn er til á landinu, í bálstofu Fossvogskirkjugarðs en sá er kominn til ára sinna, var tekinn í notkun árið 1948 og óvíst að útblástur frá bálstofunni myndu standast nútímakröfur um umhverfisvernd. Nýi ofninn krefst þess þá ekki að hinn látni sé í kistu til að mynda bálköst en samkvæmt lögum verður slíkt þó að vera.

Meðferðarheimili reist á svæðinu

Enn fremur er gert ráð fyrir því að reist verði meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu á svæðinu með svipaða starfsemi og Stuðlar. „Heimilið myndi standa inn í miðjum birkiskógi, þar sem starfsemin fengi að vera í friði með fallegu útsýni í jaðri byggðar sem hentar slíkri starfsemi vel“, segir Arinbjörn Vilhjálmsson skipulagsstjóri Garðabæjar en Skógræktarfélag Garðabæjar hefur ræktað upp svæðið undanfarna áratugi.

Arinbjörn Vilhjálmsson, skipulagsstjóri Garðabæjar.
Skipulagsuppdráttur Garðabæjar af skipulagi svæðisins
Mynd/Garðabær

Ekki hefur verið ákveðið hvenær framkvæmdir hefjast að sögn Arinbjarnar en það verður líklega í tengslum við uppbyggingu í Vetrarmýri og Hnoðraholti þar sem að kirkjugarðsvæðið verður nýtt til efnislosunar.

Rjúpnadalur

Rjúpnadalur er dalverpi norðan og ofan við Vífilstaðavatn á móts við Kjóavelli á milli Smalaholts og Rjúpnahæðar. Þar voru áður fjarskiptamöstur innan girðingar. Jaðar kirkjugarðsins verður nærri brúnum Smalaholts og þaðan er mikið útsýni til Vífilstaðavatns, byggðar á höfuðborgarsvæðisins og Snæfellsjökuls. Deiliskipulag gerir ráð fyrir staðsetningu kennileitis á brún Smalaholts sem verður sýnilegt úr Garðabæ og jafnvel víðar og gæti verið áhugavert útilistaverk eins og útsýnisturn eða ljósaskúlptúr, segir Arinbjörn skipulagsstjóri Garðabæjar.