Leikarinn og framleiðandinn Alec Baldwin hefur verið ákærður fyrir manndráp af gáleysi í tengslum við voðaskot sem átti sér stað við tökur á kvikmyndinni Rust árið 2021. CBS News greinir frá.
Embætti saksóknara í Nýja Mexíkó fylki í Bandaríkjunum staðfesti þetta í dag, en auk Baldwin er Hannah Gutierrez-Reed, vopnavörður á tökustað, einnig ákærð fyrir manndráp af gáleysi.
Halyna Hutchins, kvikmyndatökustjóri, lést við tökur á kvikmyndinni Rust í kjölfar voðaskots sem átti sér stað við æfingar. Eins og frægt er hélt Baldwin á byssunni og hleypti af skoti sem varð til þess að Hutchins lést og leikstjórinn, Joel Souza, særðist. Baldwin hefur haldið því fram að hann hafi haldið að púðurskot væru í byssunni og því hafi þetta verið óviljaverk.
Halyna Hutchins var 42 ára og þótti í hópi efnilegustu kvikmyndatökustjóra Bandaríkjanna. Halyna var sótt af þyrlu á tökustað og var úrskurðuð látin við komuna á sjúkrahús, en Souza var fluttur á sjúkrahús með áverka en var útskrifaður skömmu síðar.
Í nóvember í fyrra fjölluðu bandarískir fjölmiðlar um að Baldwin hafi kært Hannah Gutierrez-Reed, vopnavörð á tökustað, Dave Halls, aðstoðarleikstjóra, Sarah Zachry, brellumeistara og Seth Kenney sem hafi afhent honum byssuna, vegna málsins. Í kærunni kemur fram Baldwin telji að starfsfólkið hafi viðhaft kæruleysisleg vinnubrögð, en hann vill að eigin sögn hreinsa mannorð sitt og draga þá seku til ábyrgðar.